Allt upp á borðið
Sérstakur saksóknari hefur látið til sín taka undanfarna daga í samvinnu við lögreglu og fjármálaeftirlit. Húsleitir hafa verið gerðar á ýmsum stöðum í tengslum við rannsókn embættisins á fjárfestingum og lánastarfsemi nokkurra fyrirtækja, nú síðast Sjóvár og Milestone með aðkomu Askar Capital. Mun vera um “verulega fjárhagslega hagsmuni” að ræða.
Almenningur tekur þessum tiltektum sérstaks saksóknara fagnandi, enda gætir vaxandi óþreyju eftir aðgerðum. Margir óttast þó að svo langur tími sé liðinn frá hruninu að þeir sem eitthvað höfðu að fela hafi nú þegar falið það – enda hafi þeim hinum sömu gefist til þess rúmur tími.
Sú töf sem varð á því að fyrsta húsleitin var gerð kann að skýrast af ýmsu. Vandasamur undirbúingur getur verið ein ástæða.
Vera kann einnig að stjórnkerfið sjálft sé svifaseint og illa “smurt” til þess að takast á við viðamiklar rannsóknir á borð við stórfelld auðgunar- og efnahagsbrot. Kannski erum við Íslendingar – í allri okkar ágóðasókn og fjármálaframhleypni – of miklir einfeldningar til þess að sjá í hendi, hvað þá að takast á við, brot af þeim toga sem hér er um vélað. Enda þarf ímyndunarafl til þess að gera sér í hugarlund hringavitleysuna sem átti sér stað í fjármálaþenslunni þar sem eigna- og krosseignatengslin voru óskiljanleg orðin. Fjármögnunarleiðirnar sömuleiðis eins og rakið var í Kastljósi nú á þriðjudaginn vegna bankana: Kaup á banka A fjármögnuð með því að taka lán í banka B, og til að greiða það lán var aftur farið í banka A og tekið lán ...
Tregðan í kerfinu á sér þó líklega enn djúpstæðari orsakir sem teygja sig inn í stjórnsýsluna og sjálf stjórnmálin. Það eru fjölskyldu- og hagsmunatengslin, þessir ósýnilegu þræðir sem ofist hafa um hvern kima samfélagsins: Inn í stjórnmálaflokkana, atvinnulífið, fjölskyldurnar, félagasamtökin, þar sem “maður þekkir mann” og kynnir þann mann (karl eða konu) fyrir öðrum, sem býður manni í veiðitúr, og maður veitir manni lán með veði í hlutabréfunum sjálfum og lánið má afskrifa ef illa fer, og maður er fyrr en varir kominn inn að stjórnarborði fyrirtækis .... og svo getur komið sér vel að laða þangað uppvaxandi stjórnmálamenn, bjóða þeim eignarhlut og stjórnarsetu, fá þá til að makka með ...
“Allt upp á borðið” segir stjórnmálamaður einn daginn, en neitar þann næsta að svara spurningu um 900 mkr lánafyrirgreiðslu til maka og hugsanleg innherjaviðskipti. Annar tekur hraustlega til máls um pólitísk tengsl en reiðist um leið og minnst er á hans eign fjölskyldu- og fjármálatengsl. Sá þriðji hefur setið í stjórn olíufyrirtækis, sá fjórði hefur stýrt fjárfestingabanka í þrot, sá fimmti nýtur góðs af fjölskyldu og venslatengslum inn í atvinnulífið, sá sjötti líka ...
Þannig liggja þræðirnir í okkar litla samfélagi – þeir eru þéttriðið hagsmunanet.
Sérstakur saksóknari á mikið verk fyrir höndum að fá það “allt upp á borðið”.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.