Allt undir í Síkinu í kvöld
Það þarf eflaust ekki að minna nokkurn á það að Tindastóll og Njarðvík mætast í Síkinu í kvöld í fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum Subway-deildarinnar. Feykir spáir því að það verði barist frá fyrstu til síðustu sekúndu enda er allt undir; Tindastóll leiðir einvígið 2-1 og vilja pottþétt tryggja sér farseðilinn í úrslitarimmu gegn liði Vals á heimavelli í kvöld á meðan gestirnir úr Njarðvík verða að vinna leikinn til að halda draumnum sínum á lífi og tryggja sér oddaleik í Ljónagryfjunni suður með sjó.
Það er ekki ofsögum sagt að stemningin í Skagafirði og hjá Skagfirðingum um allt land hafi verið stillt á ellefu af tíu mögulegum síðustu daga og vikur. Leikur Stólanna og Keflavíkur í Síkinu á páskadag verður lengi í minnum hafður. Áætlað er að 1.350 manns hafi verið í Síkinu og eintóm veisla – innan sem utan vallar. Ekki var það heldur til að skemma fyrir að Arnar og Helgi í Úlfur Úlfur og Sverrir Bergmann höfðu skellt í nýtt stuðningsmannalag, Tindastóll, sem hitti heldur betur í mark.
Yfir þúsund manns mættu á leik Tindastóls og Njarðvíkur í Síkinu sl. sunnudag og það verður að teljast líklegt að aðsóknin verði enn meiri í kvöld. Samkvæmt upplýsingum Feykis verður tjaldað við íþróttahúsið og hamborgarasalan fer í gang kl. 17:30 auk þess sem boðið verður upp á lifandi tónlist og hægt verður að nálgast kalda drykki.
Nokkrir heimamenn hafa verið duglegir að mynda á leikjum Tindastóls og margar ómetanlegar myndir hafa litið dagsins ljós. Feykir fékk leyfi hjá Davíð Má Sigurðssyni að birta nokkrar prýðilegar myndir frá oddaleik Tindastóls og Keflavíkur sem fram fór á páskadag. Hér er stemningin í Síkinu fönguð með miklum myndarbrag!
Svo má geta þess að þeir sem vilja fá gleði páskahelgarinnar beint í æð gætu gert margt vitlausara en að hlusta á hressilegt og hispurslaust hlaðvarp Sigga og Tomma, Boltinn lýgur ekki, þar sem þeir félagar rifja upp heimsókn sína á Krókinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.