Allt rusl hvarf á fyrsta degi
Vinnuskóli Skagafjarðar fór af stað í gær og fór blaðamaður á stúfana til að forvitnast aðeins um starfsemina.
Að sögn Stefáns Arnars Ómarssonar, yfirmanns Vinnuskólans, og Árna Gísla Brynleifssonar mættu krakkarnir hressir til vinnu í gær og var ráðist í það verkefni að hreinsa bæinn og sandana frá öllu rusli. Verkefnið gekk vel og vildu þeir meina að þetta hefði verið öflugasti hópurinn í ruslatínslu hingað til þar sem allt rusl hvarf á fyrsta degi.
Því var haldið af stað í það verðuga verkefni að hreinsa beðin hjá Árskóla, á Skagfirðingabrautinni og Aðalgötunni.
Hóparnir hjá Vinnuskólanum í ár eru að sögn Stefáns 8 talsins og samtals eru það 143 krakkar sem eru töluvert fleiri en í fyrra.
Vinnutíminn hjá þeim er þó misjafn eftir aldri þar sem:
Árgangur 1997 fá 2 vikur fyrir hádegi
Árgangur 1996 fá 5 vikur allan daginn
Árgangur 1995 fá 7 vikur allan daginn
Árgangur 1994 fá 8 vikur allan daginn
Aðspurður um hvort einhver ný verkefni væru í sumar sagðist hann ekki sjá það í fljótu bragði en segir að margt geti komið upp og að vinnuskólinn sé alltaf opinn fyrir nýjum verkefnum.
Svo það er um að gera að hafa samband ef fólk hefur einhverjar ábendingar um Skemmtileg verkefni.
Snæbjört Pálsdóttir skrifar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.