Allt að verða uppselt á leikinn í Síkinu á sunnudag

Norðurlands villta vestrið er með bækistöðvar í Síkinu. MYND: DAVÍÐ MÁR
Norðurlands villta vestrið er með bækistöðvar í Síkinu. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það er ýmislegt sem dregur að sér athyglina þessa helgina; sveitarstjórnarkosningar og Eurovision á laugardagskvöldið en hér á Norðurlandi vestra virðast nú flestir hafa hvað mestan áhuga á ævintýri Tindastóls í úrslitakeppninni í körfubolta og það þarf talsvert djúsi málefni til að skófla körfunni út af kaffistofuborðinu. Mbl.is greinir frá því að miðar á fjórða leikinn í einvígi Vals og Tindastóls, sem fram fer nú á sunnudagskvöldið, fóru í sölu í morgun á miðasölukerfinu Stubbi sem hrundi undan álaginu. Það er næsta víst að það verði engir auðir og ógildir í Síkinu á sunnudag.

Hermt er að tölu­vert færri hafi komist að en vildu á þriðja leik liðanna í gær­kvöldi. Sú virðist ætla að verða raunin með næsta leik líka því Mogginn hefur eftir Degi Þór Baldvinssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Tindastóls, að 800 miðar hafi selst á tíu mínútum í morgun. Síkið tekur 1200 manns en eftirspurn eftir miðum er talsvert meiri. Dagur tjáði Feyki rétt í þessu að það styttist í að það verði uppselt á leikinn en stefnt er að því að selja restina af miðunum í sjoppunni í íþróttahúsinu kl. 17:00 í dag (föstudag).

Úrslitakeppnin hefur verið bráðskemmtileg þetta vorið og þá ekki hvað síst viðureignir Tindastóls gegn Keflvíkingum, Njarðvíkingum og Völsurum – enda boltinn sem liðið spilar alla jafna eins og að túrbótakkinn á tölvuleikjafjarstýringunni sé fastur á ON. Stemningin og gleðin sem hefur fylgt stuðningsmönnum Stólanna, sem koma af öllu Norðurlandi vestra og sennilega miklu víðar, hefur líka vakið mikla athygli – og vegna skorts á almennilegum lýsingarorðum hafa sérfræðingar í setti kallað hana einstaka. Svf. Skagafjörður bauð stuðningsmönnum rútuferð á leikinn frá Króknum og þá herma upplýsingar Feykis að rúta hafi sömuleiðis farið frá Hvammstanga. 

En bara svo það sé á hreinu; Stólarnir þurfa á sigri að halda til að eiga möguleika á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í Origo-höllinni nk. miðvikudag. Má ég heyra?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir