Allt á suðupunkti í Síkinu þegar Stólarnir lögðu Keflvíkinga í framlengdum leik
Það var raf-mögnuð stemning í Síkinu í kvöld þegar Keflvíkingar heimsóttu Tindastólsmenn í þriðju viðureign liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar í körfubolta. Bæði lið höfðu unnið örugga sigra í sínum fyrstu heimaleikjum í rimmunni og það lá í loftinu að boðið yrði upp á naglbít í þriðja leiknum. Það stóð heima, leikurinn var æsispennandi og endaði með framlengingu og þar tryggði Zoran Vrkic Stólunum sigur með laglegri íleggju þegar tæpar tvær sekúndur voru eftir á klukkunni. Lokatölur 95-94 og Tindastóll leiðir einvígið 2-1.
Fyrsti leikhluti var jafn og spennandi en það voru þó gestirnir sem leiddu lengstum. Þristur frá Tarvydas, sem var bestur í liði Keflavíkur í kvöld, kom Suðurnesjapiltum yfir, 19-20, þegar tvær og hálf mínúta lifði en síðustu mínútu leikhlutans nýttu Stólarnir vel. Badmus gerði þá tvær laglegar körfur, Hörður Axel reyndi skot þegar tvær sekúndur voru eftir en Arnar vann boltann í eigin vítateig og skaut yfir völlinn endilangan og beint oní. Bara svona eins og hola í höggi hjá Donald Trump – nema myndavélarnir náðu þessu skoti. Staðan 26-20.
Þessi ruglkarfa virtist gera Tindastólsliðinu gott því þeir mættu vígreifir í annan leikhlutann og voru fljótlega komnir með gott forskot, 32-20, og munurinn var þetta tíu til þrettán stig næstu mínútur. Viðar skellti meira að segja í hátíðarþrist og Stólarnir leiddu 40-27 en í framhaldinu riðlaðist sóknarleikur heimamanna og síðustu fjórar mínúturnar fram að hléi unnu Keflvíkingar 3-14 og minnkuðu muninn því í aðeins tvö stig. Staðan 43-41 í hálfleik.
Vrkic með sigurkörfuna á næstsíðustu sekúndunni
Gestirnir héldu uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og komust yfir, 43-46, en Stólarnir komu til baka með þremur þristum, á tæpri mínútu, frá Pétri, Arnari og Bess. Næstu mínútur héldu Tindastólsmenn frumkvæðinu og um miðjan þriðja leikhluta skellti Vrkic í þrist og staðan orðin 60-50. Axel tók þátt í þriggja stiga partýinu og kom sínum mönnum í 65-57 þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum en þá kom 0-9 kafli hjá gestunum sem leiddu því fyrir lokafjórðunginn, 65-66. Jafnt var á flestum tölum í fjórða en bæði lið hertu á varnarleiknum. Staðan var 77-77 þegar fjórar mínútur voru eftir en þá náðu gestirnir að gera fimm stig í röð og staðan því 77-82 þegar þrjár mínútur voru eftir. Badmus gerði næstu fjögur stig Stólanna en Keflvíkingar voru enn fjórum stigum yfir þegar tvær mínútur voru eftir, 81-85. Arnar setti þá niður tvö víti og Siggi Þorsteins jafnaði leikinn þegar rúm mínúta var eftir. Skjálfti var í sóknarleik liðanna síðustu mínútuna og liðunum tókst ekki að bæta við stigum. Staðan 85-85 þegar leiktíminn rann út og því framlengt.
Oft er nú sagt að liðið sem byrjar framlenginguna betur fari með sigur af hólmi en sú var ekki raunin að þessu sinni. Körfur frá Herði Axel og Tarvydas komu Keflvíkingum yfir, 85-89, en þá kom til kasta Siggans okkar. Hann hafði verið mistækur í sókninni en nú skilaði hann fimm stigum í röð og kom Stólunum yfir á ný og Bess fylgdi þessu eftir með silkiþristi úr hægra horninu þegar 100 sekúndur voru eftir. Þær geta verið lengi að líða í körfubolta og eftir sitt hvora misheppnaða sókn liðanna minnkaði Tarvydas muninn í eitt stig með þristi. Vrkic klikkaði á 3ja stiga skoti í næstu sókn Stólanna og það var að sjálfsögðu Milka sem nánast missti boltann ofan í körfu Tindastóls þegar 7,8 sekúndur voru eftir af leiknum og kom gestunum yfir. Baldur tók leikhlé og rissaði upp kerfi. Vrkic fékk boltann eftir innkastið og virtist nú varla líklegur til neins en varnarleikur gestanna varð hálf kómískur þegar kappinn drævaði að körfunni framhjá Milka og Tarvydas, sem féll í parket, og Vrkic lagði boltann snyrtilega í körfu gestanna þegar tæpar tvær sekúndur voru til leiksloka. Tarvydas fékk boltann eftir innkastið og reyndi skot frá eigin vallarhelmingi en það var víðsfjarri og Síkið sprakk í loft upp af létti og fögnuði.
Svakalegur leikur
„Þetta var svakalegur leikur, framlenging og allur pakkinn, eins og úrslitakeppnin á að vera og ég er bara ánægður að þetta lenti okkar megin,“ sagði Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, í samtali við Vísi. Um sigurkörfu leiksins hafði hann þetta að segja: „Þetta var það sem við teiknuðum upp, við ætluðum að láta Zoran eða JB (Javon Bess) fá boltann þarna og sækja á Milka og það gekk í þetta skiptið,“ sagði Baldur. „Ég er mjög ánægður að vinna, það er fullt af hlutum sem við getum gert betur og við þurfum að vera betri en þetta,“ sagði Baldur.
Badmus og Bess voru atkvæðamestir í liði Tindastóls í kvöld, báðir með 23 stig, en Badmus tók flest fráköst Stólanna eða 11 stykki. Arnar var með 13 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar, Vrkic og Siggi skiluðu ellefu stigum hvor. Pétur gerði aðeins þrjú stig en hann skilaði átta fráköstum, sjö stoðsendingum og stal fjórum boltum. Í liði Keflavíkur var Darius Tarvydas með 30 stig og átta fráköst, Milka var með 16 stig og ellefu fráköst, Brodnik var með 14 stig og Valur (sem er frá Króknum) gerði 11 stig.
Liðin mætast í fjórða skiptið í Keflavík á skírdag og ef fimmta leikinn þarf til að landa úrslitum í rimmunni þá mætast liðin í Síkinu á páskadag. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.