Allir togarar FISK Seafood hafa landað í vikunni
Það er allt fullt af fiski á Króknum þessa vikuna en allir þrír togarar FISK Seafood hafa landað ágætum afla. Frystitogarinn Arnar HU1 kom til hafnar á Sauðárkróki á mánudag eftir 30 daga túr með 810 tonn upp úr sjó. Sama dag landaði Drangey SK2 156 tonnum þar sem uppistaðan var þorskur og loks landaði Málmey SK1 145 tonnum þar sem uppistaðan var þorskur, ýsa og karfi.
Málmey var mest að fiska á Halanum en Drangey sótti sinn afla að mestu á Deildargrunn.
Á heimasíðu FISK Seafood er spjallað við Bárð Eyþórsson skipstjóra um túrinn en hann segir Arnar hafa verið að langstærstum hluta að veiðum á Vestfjarðarmiðum. „Einnig vorum við á Tungunni og lítillega á fjöllunum. Það var fín veiði en við hefðum viljað sjá aðeins meira af ufsa. Mikið af karfa er á halanum og eiga skip oft í vandræðum út af honum. Veður í túrnum var mjög gott fyrir utan 3-4 daga sem kaldaði upp. Skipið er með um 21.500 kassa sem gera um 810 tonn uppúr sjó og aflaverðmætin eru um 300 milljónir“ sagði Bárður.
Aðrar aflafréttir má síðan finna í Feyki sem kemur út í dag en þar er ávallt sagt frá vikulegum afla þeirra báta og togara sem landa á Norðurlandi vestra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.