Allir á Lionsball um helgina

Lionsklúbburinn Björk á Sauðárkróki ætlar að halda dansleik n.k. laugardag á Mælifelli til styrktar Þuríði Hörpu en hún er einmitt stödd þessa dagana á Indlandi að fá bót meina sinna.

Allur ágóði af ballinu rennur óskiptur til Þuríðar en allir sem að ballinu standa munu gefa vinnu sína. Geiri og Jói munu leika af fingrum fram langt fram undir morgun. –Það eru ýmsir sem leggja hönd á plóg til að dansleikurinn geti orðið að veruleika, segir Anna Pála Þorsteinsdóttir ritari klúbbsins sem vill koma þakklæti til allra þeirra hjálpfúsu handa sem að þessu verkefni koma.

Lionsklúbburinn Björk sem er alfarið skipaður konum hefur verið sérlega hjálplegur við Þuríði í vetur með allskyns fjáröflunarverkefnum  m.a. pastpokasölu, bögglauppboði og happdrætti. –Það má kannski segja að Þuríður sé okkar aðalverkefni á þessu starfsári, segir Anna Pála í viðtali við Feyki í dag. Hún hvetur alla til að mæta á ballið og bendir á að fólk á öllum aldri verður á staðnum að skemmta sér svo enginn þarf að vera hræddur um að finna ekki jafnaldra sína. Ekki skemmir fyrir að aðgangseyri er stillt í hóf en einungis 1500 kr. kostar inn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir