Ágúst pínu betri en júlí :: Skeyti frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Spámenn Veðurklúbbsins á Dalbæ segja að það gæti brugðið til beggja vona með veðrið inn á milli í ágúst eins og í júní og júlí. Aðsend mynd.
Spámenn Veðurklúbbsins á Dalbæ segja að það gæti brugðið til beggja vona með veðrið inn á milli í ágúst eins og í júní og júlí. Aðsend mynd.

Núna tók veðurklúbburinn ákvörðun um að halda mánaðarlega fundinn sinn viku fyrr en vanalega, eða 26. júlí, til að fara yfir veðurútlit ágústmánaðar, segir í skeyti veðurspámanna á Dalbæ. Segir þar að ýmsar upplýsingarnar hafi komið frá félögum að þessu sinni en engar voru þær verulega slæmar frekar en undanfarið.

„En samt sem áður eru félagar ennþá ákveðnir í að snjói í fjöll hérna nyrðra núna á næstu dögum eins og kom fram í spá júlímánaðar. Þá eru líkur skini og skúrum í ágúst líka en þrátt fyrir það gerum við ráð fyrir að ágúst verði pínu betri en júlí varðandi hita, vind og úrkomu, allavega út hundadaga,“ segja spámenn og bæta við að það geti brugðið til beggja vona inn á milli í ágúst eins og í júní og júlí.

„Við hérna á Dalvíkinni getum samt sem áður ekki kvartað frekar en undanfarið ár, svona miðað við suðvesturhornið, en við gætum mögulega farið að draga úr veðurlýsingum héðan svo við verðum ekki völd að stórtækum fólksflutningum af suðvesturhorninu hingað á Dallas, því þó það sé verið að byggja hérna ný hús þá getum við ekki tekið við mörgum þúsundum í einu……. Ja, nema kannski svona eina og eina Fiskidagshelgi á ári, en ekki mikið lengur en það í einu. Við bíðum samt og sjáum hvort þær helgar fara í gang aftur, því ekki verður hún haldin hátíðleg þetta árið frekar en tvö síðustu,“ segir í skeyti Veðurklúbbsi

Sól á heiðum
Nú er sumar og sólskin á heiðum.
Þær seiða og lokka minn hug.
Þó ég sé við annirnar bundinn
þær andanum lyfta á flug.

Svo fer hann í ferðina þráðu
og fælist ei vofur né tröll,
með félögum glöðum og góðum
skal gista Hveranna völl.

Ég legg upp á laugardagsmorgni.
Nú er ljómandi föstudagssól
og skuggarnir læðast í lautum
en leika sér geislar á hól.

Á morgun við svala úr suðri
er sólin á brúnum fær völd
fer ég syngjandi suður um heiðar
og sæki því hrossin í kvöld.

Höfundur: Ólafur Sigfússon, Forsæludal

________________________________________________________________

Við vildum að veðrin þau væru
vinsamleg við okkur öll.
Að himnarnir háu og tæru
birtu upp engjar og fjöll.

Einhverjir hafa haft á orð
að veður sem borið sé á borð
sé síður en sæla
og endalaust væla
að vilji fá staðfest veðurvottorð.

Höf. Bjór.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir