Áfram er grafið undan heilbrigðisþjónustu í Skagafirði

Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson

Sveitarstjórnum og öðrum íbúum Skagafjarðar var á dögunum kynnt með auglýsingu í héraðsmiðlum að Læknavaktin ehf í Reykjavík myndi frá 1. september taka við allri síma- og vaktþjónustu utan dagtíma vegna heilbrigðisþjónustu í Skagafirði. Á sama tíma mátti lesa viðtöl í fjölmiðlum við forsvarsmenn þessarar einkareknu heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, þar sem greina mátti mikla ánægju með ný verkefni fyrirtækisins sem kölluðu á ráðningu fleiri hjúkrunarfræðinga til að sinna þeim.

Hægt og hljótt hverfa áfram verkefnin og störfin

Verkefnin og störfin í héraði hverfa eitt af öðru. Hægt og hljótt er verið að méla niður það góða starf og þjónustu sem byggt var upp á áratugum við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Það heyrir til undantekninga að slíkt sé sérstaklega auglýst eins og þarna var gert. Það er hinsvegar án undantekninga að ekkert samráð er haft við heimamenn hverju sinni sem ráðist er í skerðingu heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Ég fékk málið tekið upp á byggðaráðsfundi 3. september þar sem gerð var nokkuð snörp samþykkt og óskað eftir að forstjóri HSN sem staðsettur er á Húsavík, mætti til fundar. Sú bókun rataði í fréttir RÚV næsta dag þar sem forstjóri gaf strax lítið fyrir áhyggjur Skagfirðinga.

Samráðsnefndir um heilbrigðisþjónustu ekki kallaðar saman

Miklar breytingar hafa verið gerðar á heilbrigðisþjónustu í Skagafirði síðustu misseri og Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki lögð niður sem slík og lögð inn í nýja stofnun, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og öll stjórn mála færð endanlega burtu úr héraði. Lofað var ríku samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og byggðarlög um fyrirkomulag og breytingar á heilbrigðisþjónustu. Skipan sérstakrar samráðsnefndar þar sem fulltrúar tilnefndir af landshlutasamtökum á starfssvæðinu áttu sæti var m.a kynnt til sögunar í þeim tilgangi. Tilnefnt var í nefndina síðla árs 2014. Hún hefur hinsvegar aldrei verið kölluð saman fremur en sambærilegar nefndir í öðrum landshlutum. Ekki verður séð að landshlutasamtök á NV fremur en annarsstaðar á landsbyggðinni hafi haft sinnu á að fylgja því eftir. Því miður er eins og komin sé þreyta í sveitarstjórnarfólk sem valist hefur til forystu fyrir sín byggðarlög eftir linnulausa varnarbaráttu.

Ögmundur varði sjálfstæði Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki

Frá því ég kom í sveitarstjórn hefur eitt helsta verkefni okkar verið að verja Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og þjónustu hennar. Þar hefur ekki skort samstöðuna hjá sveitarstjórnarfólki í Skagafirði gegnum árin. Minnisstæðir eru ýmsir fundir og uppákomur sem því tengjast. Sjaldan hef ég verið stoltari af núverandi utanríkisráðherra og þáverandi formanni byggðaráðs Skagafjarðar, en á síðustu vikum hrunstjórnarinnar þegar þáverandi heilbrigðisráðherra fékk það óþvegið fyrir að ætla að leggja niður Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Það var einnig sigur þegar nýr ráðherra, Ögmundur Jónasson jarðaði þær hugmyndir nokkrum dögum síðar með þeim orðum að stofnanir yrðu ekki sameinaðar gegn vilja heimamanna. Þá fannst mér og fleirum við hafa áhrif!

Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki 1907-2014

Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hóf starfsemi sína í ársbyrjun 1907 og var lögð niður af ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins 9. júlí 2014, rúmlega mánuði eftir sveitarstjórnarkosningar. Hún var 107 ára. Á sama tíma var utanríkisráðherra og 1. þingmaður kjördæmisins að pakka niður fyrir sína aðra Úkraínu ferð á árinu, nokkrum dögum síðar. Á sama tíma og Skagfirðingum var birt ákvörðun um flutning símasvörunar heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur var utanríkisráðherra staddur meðal félaga sinna í ESB þar sem hann ítrekaði fyrri steytingar um viðskiptabann á Rússa. Í fjarverum utanríkisráðherra vegna þessara „forgangsverkefna“, hefur enginn þingmanna núverandi stjórnarmeirhluta í kjördæminu sýnt döngun og stigið upp til varnar heilbrigðisþjónustu í Skagafirði eða landshlutanum. Það hefur verið æpandi hve þeir hafa verið úrræða- og umkomulausir að veita einhverja viðspyrnu eða stuðning.

Öflug heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar heyrðist mjög að kjósa bæri framboð stjórnarflokkanna til að tryggja stuttar boðleiðir til varnar og framfara fyrir héraðið. Að verja sjálfstæði Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki var þar stærsta verkefnið. Þau voru allnokkur sem trúðu þessum málflutningi. Ekkert slíkt hafa Skagfirðingar hinsvegar upplifað til þessa. Í raun hefur héraðið aldrei fengið aðra eins útreið af hálfu stjórnvalda á góðæristíma. Vonbrigðin eru því gríðarleg, en ekki síst fyrir það fólk sem í einlægni og máski einfeldni talaði fyrir og trúði því að hlustað yrði á framsóknarmenn og sjálfstæðismenn í Skagafirði. Sveitarstjórnarfólk í Skagafirði er á sama báti. Við þurfum öll að berjast við þessa ríkisstjórn. Mér er eins og fleirum mikið niðri fyrir því öflug heilbrigðisþjónusta í heimabyggð sem rekin er í nánu samráði við íbúa er ein af lykilfosendum góðra búsetuskilyrða.

Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir