Ævintýri Þuríðar Hörpu - Síðasta helgin í Delhí …í bili
Laugardagsmorgun og ég á leið í æfingar, hjóla út um herbergisdyrnar og spyr mömmu hvort hún taki ekki örugglega lykilinn að herberginu og vatnið, sem hún auðvitað er búin að gera. Þröngva mér fram hjá stólnum á ganginum sem hjúkkurnar sitja í þegar þær eru að fylla út dagskýrslurnar, hjóla fyrir hornið og ýti á takkan þannig að lyftan komi einhverntíman á næstu 10 mín. eða svo enda mikið álag á henni á morgnana.
Niðri er svalt og aðstoðarmaður strax mættur til að hjálpa mér upp á bekkinn og svo kemur Shivanni, brosandi eins og venjulega heilsar og spyr hvernig ég hafi það í dag. Ég svara eins og venjulega, bara gott. Við klárum dýnuæfingar og hún segir að í dag sé ég sterkari í fótum heldur en í gær, mér finnst ég einhvernveginn hafa meiri tilfinningu inn í neðri hluta líkamans en í gær, rófusprautan hlýtur að vera að virka. Æfingaboltinn kemur líka vel út þegar ég loks náði að jafnvægisstilla mig. Eftir hádegi er ákveðið að fara á Art Mocca sem er kaffihús sem sýnir samtímalist í DLF mollinu. Þvílík vonbrigði, verð bara að segja það, á veggjunum hengu tölvugerðar myndir prentaðar á striga eftir rússneskan listamann, þetta höfðaði allsekki til mín þannig að ég var fljót út. Þegar út kom er stórt torg með stórum gosbrunni og veitingastað við hliðina á innganginum inn í mollið aftur, svo er annað moll DLF empirio eða eitthvað svoleiðis, við ákváðum að kíkja þar inn. Ótrúleg upplifun, ótrúlega mikill íburður ótrúlegar verslanir, s.s. Dior, Gucci, Chanel o.fl. o.fl. Þarna er fólk af allt öðrum toga en í hinum mollinu, ég álpaðist inn í þessar verslanir og eftir að vera búin að spyrja um verð á nokkrum handtöskum og skóm, því enginn verðmiði er nokkurnstaðar sjáanlegur þarna, var ég komin með undarlega tilfinningu í magann. Ég hef aldrei upplifað svimatilfinningu áður í verslunarmolli, enda hef ég aldrei komið inn í svona verslanir áður. Mér fannst gaman að skoða en einhvernveginn fannst mér ég allsekki eiga að vera þarna smáborgari úr pínu þorpi á Íslandi. Hlýtur að vera brjálæðisleg tilfinning að finnast einfalt og venjulegt að versla í þessum búðum þar sem minnsta handtaska er á 50.000 kr. ísl. og aðeins stærri á yfir 100.000 kr. og halló, mollið var fullt af þessu fólki sem finnst ekkert eðlilegra en að kaupa í þessum verslunum. Já, ég var þeirri stund fegnust þegar ég fór út, Sigurbjörn bauð upp á kaffi úr dýra mollinu og reiknaðist okkur til að bollinn kostaði um 600 kr. bara ódýrt.
Við borðuðum aftur á Smoke House Delhí sem var bara notalegt, ég gat fylgst með hinu fólkinu sem kom út úr dýra mollinu, fólk sem lifir annars konar lífi. Kvöldið endaði ég á að horfa á Desperate Housewifes, meðan mamma skipulagði pökkun fyrir heimferðina á aðfaranótt þriðjudags. Sunnudagsmorgun kom eins og lög gera ráð fyrir, nú var ekkert hægt að sofa út því við ætluðum af stað í The President garden um hálfellefu. Bílstjórinn mætti á hvítu drossíunni og enginn Sigurbjörn mættur, mamma stormaði af stað vissum að hann væri enn sofandi, sem hann eiginlega var. Bílstjórinn setti okkur úr við garðinn og eftir að hafa farið í gegnum vopna- og sprengjuleit og búið var að hirða af okkur veski, síma og myndavél komumst við í gegn. Garðurinn var ótrúlegur, rósirnar og ilmurinn af þeim, litadýrðin og gosbrunnarnir. Reyndar var garðurinn mjög geometrískur og mikið um ferkantaða fleti – garðurinn lá alveg að bakhlið forsetahallarinnar. Væri ekki leiðinlegt að halda garðveislur þarna. Garðurinn er opin frá hálftíu á morgnanna til hálfþrjú á daginn. Seinni partinn hlýtur forsetinn að spígspora þarna um, einhverjir hljóta að njóta garðsins aðrir en garðyrkjumennirnir. Þegar við komum aftur í bílinn vorum við orðin svöng og báðum bílstjórann okkar að finna fyrir okkur góðan vestrænan veitingastað, ekki indverskan. Jú jú hann brunaði af stað og lagði svo fyrir utan stað sem hét Hotel eitthvað, sagði svo við okkur besti veitingastaðurinn í 50 ár. Við fórum inn og veltum fyrir okkur hvort hann hefði sagt, fyrir 50 árum. Líklega hefur ekki mikið breyst þarna inni í 50 ár og þetta var indverskur staður. Maturinn var samt ljómandi góður. Eftir ferðalagið var komin tími á að byrja að pakka og mamma dreif sig í það meðan ég tók mér síðdegisblund. Sem sagt rólegheita helgi hjá mér og svo er það síðasti dagurinn í Indlandi á morgun.
Föstudagur 12. mars
Síðasti föstudagurinn er runnin upp. Fuglarnir hættir að vekja mig á morgnana eftir mamma skellti dagblaði utan á gluggann, svo nú er það bara vekjarinn sem ónáðar mig. Æfingarnar gengu bara vel, sumt betra og sumt ekki alveg eins gott en í heildina bara gott. Dr. Geeta kíkti á mig og tók út ástandið, hún var ánægð og þegar hún skipaði að ég skyldi hreyfa tá þá einhvern veginn gerðist það, stór skrítið, því mér tekst þetta nú alls ekki oft. Eftir hádegi var komið að síðustu sprautunni og hún var framkvæmd hér á 3ju hæðinni. Allt var eins og áður nema nú var ég látin liggja á maganum með kodda undir mjöðmunum. Maginn herptist saman og ég fann fyrir tilfinningu líkastri náladoða alveg út í tær. Ég fann þegar dr. Ashis þrýsti á bakið á mér mjög neðarlega, ég var samt ekki alveg viss um hvað neðarlega, síðan fékk ég gæsahúð upp fyrir eyru og taugasting ofarlega í bakið. Þetta tók fljótt af og mér var komið á hjólabekk og inn á herbergi á 3ju hæðinni þar sem ég átti að liggja í 4 klst. á bakinu með rúmið hallandi þannig að fæturnar voru í hærri stöðu en höfuðið. Tíminn leið og þegar klukkan var orðin sjö og ég búin að vera þarna í 5 tíma fór ég niður. Eins og áður fann ég ekki fyrir neinum óþægindum, höfuðverk eða ógleði. Ég tékkaði á hvar umbúðirnar væru á bakinu á mér og fann þær svo allveg niðri á rófubeini, úbbs þetta hefur örugglega ekki verið þægilegt og ég er eins og áður guðslifandifegin að finna ekki fyrir þessu. Ég hitti svo mann frá NY hérna sem fór í eins sprautu og ég en munurinn á okkur er sá að hann hefur tilfinningu, hann sagðist aldrei hafa upplifað annan eins sársauka. Jebb ég er heppin, eða þannig. Þessi sprauta á m.a. að virka beint á blöðrusvæðið, sem ég vona, vona, vona að það geri. Dr. Geeta sagðist vilja sjá mig hér aftur í júlí, jibbý þá er bara 45 stiga hiti. Svo vildi hún að ég kæmi aftur, svona 8 mán. til ári seinna í fjórðu ferðina, sem ég geri ef árangur verður af þriðju ferðinni. Það þýðir ekkert að gefast upp, ég er bara rétt að byrja og í endaðan júlí er ár síðan ég lagði í fyrstu ferðina ;o).
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.