Ævintýraleg endurkoma Tindastóls og sigur í tvíframlengdum leik | UPPFÆRT
Tindastólsmenn voru rétt í þessu að bera sigurorð af deildarmeistur Njarðvíkinga í einum ótrúlegasta leik sem spilaður hefur verið í Síkinu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Njarðvíkingar völdin í þriðja leikhluta og náðu 18 stiga forystu og geim óver – héldu flestir. En lið Stólanna er ólseigt og náði að jafna leikinn í bráðlokin og í kjölfarið fylgdu tvær framlengingar og í þeirri síðari kláraðist hreinlega bensínið hjá gestunum. Tveir þristar frá Pétri og einn til viðbótar frá meistara Badmus kom muninum í níu stig og niðurlútir Njarðvíkingar urðu að sætta sig við annað tapið í tveimur leikjum – lokatölur 116-107.
Það var sannkölluð körfuboltahátíð á Króknum í dag og langt fram eftir kvöldi, logn og blíða á Króknum og hvað er nú betra en ilmurinn af grilluðum borgurum fyrir leik? Það fór vel á því að Helgi fyrirliði gerði fyrstu körfu leiksins fyrir frama Forseta Íslands og fylgdarlið sem var á fremsta bekk í gjörsamlega sjúllaðri stemningu í Síkinu. Stólarnir fóru betur af stað en gestirnir úr Njarðvík voru aldrei langt undan, enda máttu þeir ekkert við því að missa sjónar af Stólunum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 22-19 en gestirnir jöfnuðu 26-26 snemma í öðrum leikhluta. Þá kom góður kafli Stólanna sem gerðu átta stig í röð og mestur varð munurinn níu stig, 40-31, eftir að Siggi Þorsteins skilaði niður víti. Þeir grænklæddu svöruðu með þremur þristum fyrir hálfleik og staðan 40-40.
Stólarnir gerðu fyrstu fimm stig síðari hálfleiks en síðan var komið að Njarðvíkingum að sýna Stólum hvar Davíð keypti ölið. Um miðjan þriðja leikhluta voru þeir komnir með níu stiga forskot, 50-59. Þegar tvær mínútur voru eftir voru þeir yfir 54-64 og náðu síðan 8-0 kafla fyrir lok leikhlutans. Staðan 54-72, munurinn átján stig og ekki gott að sjá hvernig Stólarnir ætluðu að klóra sig upp úr þessari ansi djúpu holu sem Njarðvíkingar voru búnir að koma þeim ofan í.
Baldur Þór ákvað að hleypa leiknum upp, stíga bensínið í botn, fleygja bremsunum og keyra á gestina og körfuna. Eftir tæpar tvær mínútur var munurinn kominn niður í ellefu stig og trúin jókst í Síkinu og stemningin nálgaðist suðumark. Fotios og Haukur Helgi svöruðu fyrir gestina og staðan 63-78 en það virtist hlaupin einhver trú í heimamenn að það væri allt hægt á sunnudagskvöldi í Sæluviku. Tvær körfur frá Badmus og tveir þristar frá Arnari komu muninum niður í sjö stig þegar tæpar fimm mínútur voru eftir. Var þetta virkilega að gerast? Næstu mínútur var munurinn sjö til níu stig en tveir þristar frá Bess breyttu stöðunni í 82-87 þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Benni tók leikhlé og reyndi að skipuleggja leik sinna manna sem virtust vera að fara á límingunum. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi. Richotti fékk sína fimmtu villu eftir að hafa brotið á Pétri sem setti niður annað vítið. Basile svaraði með tveimur vítum en Arnar svaraði að bragði. Pétur minnkaði muninn í 89-91 þegar 18 sekúndur voru eftir og í kjölfarið fékk Arnar sína fimmtu villu og Basile setti aftur niður tvö víti. Baldur tók leikhlé og í kjölfarið á því lagði Bess boltann í körfu gestanna og Fotios braut á honum í leiðinni. Þar með fékk hann sína fimmtu villu og Bess minnkaði muninn í eitt stig, 92-93. Stólarnir brutu á Ólafi Helga um leið og Njarðvíkingar tóku boltann inn og hann setti niður fyrra vítið, Viðar náði frákastinu og Bess brunaði upp að körfu Njarðvíkinga og jafnaði leikinn, 94-94, og gestunum tókst ekki að skora áður en leiktíminn rann út. Því var framlengt.
Pétur gaf tóninn í seinni framlengingunni
Heimamenn höfðu undirtökin í fyrri framlengingunni og virtust ætla að ná sér í sex stiga forystu en ágætir dómarar leiksins dæmdu ruðning á Bess. Með seiglu náðu deildarmeistararnir að jafna leikinn í tvígang á lokamínútunni og tryggðu sér aðra framlengingu. Staðan 103-103. Njarðvíkingar náðu forystunni í seinni framlengingunni en það mátti sjá á leik þeirra að þeir virtust gjörsamlega búnir á því. Það var helst Basile sem var með lífsmarki. Pétur kom Stólunum yfir með þristi og hann bætti við tveimur vítum í næstu sókn. Hann kom síðan Stólunum sex stigum yfir með öðrum þristi þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Gestirnir fengu tvær sóknir til að minnka muninn en klikkuðu á skotunum og þegar tæp mínúta var eftir gulltryggði Badmus sigur Tindastóls með þristi úr hægra horninu við talsvert góðar undirtektir stuðningsmanna Stólanna.
Stólarnir því komnir í 2-0 í einvíginu og leikurinn í kvöld hreint út sagt fáránleg skemmtun og tilfinningarússibani stuðningsmanna beggja liða sennilega farið langt með að sprengja alla skala ef þeir eru þá til. Bess, Badmus og Pétur áttu stjörnuleik í kvöld; Bess var stigahæstur með 37 stig, Badmus gerði 35 og reif niður 13 fráköst og Pétur var með 20 stig og níu fráköst. Siggi og Arnar voru með tíu stig hvor, Siggi var áberandi framan af leik en Arnar skilaði góðum körfum þegar Stólarnir voru að draga Njarðvíkinga inn í fjórða leikhluta. Þá er ekki ónýtt að geta þess að Viðar Ágústsson spilaði í 24 mínútur, gerði ekkert stig, tók fimm fráköst en á meðan hann var inn á vellinum vann Tindastóll leikinn með 24 stigum – langhæsta +/- tala kvöldsins og geri aðrir betur. Basile var bestur í liði Njarðvíkinga með 29 stig og níu stoðsendingar, Fotios var með 22 stig, Mario og Haukur Helgi báðir með 19.
Þriðji leikur liðanna verður í Njarðvík næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst kl. 20:15. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.