Ævintýradagur á Sturlungaslóð

Frá ferð á Sturlungaslóðir fyrr í sumar

Verkefnið á Sturlungaslóð fór af stað á vordögum og er skemmst frá því að segja að verkefnið hefur farið vel af stað og stígandi aukning ferðamanna sem koma við og kíkja á Sturlungaslóð. Laugardaginn 15. ágúst stendur síðan mikið til þá er ætlunin að vera með svo kallaðan viðburðardag og verðu dagskrá allan daginn vítt og breytt um Skagafjörð. Sérstakur gestur dagsins er Einar Kárason rithöfundur en bækur hans Ofsi og Óvinafagnaður fjalla um Sturlungaöldina.

 

 

 

 

Kristín Jónsdóttir hefur í sumar séð um verkefnastjórn verkefnisins. –Mitt hlutverk er að koma verkefninu á framfæri og halda utan um það frá a – ö. Ég sem flesta texta sem frá okkur fara og sé um auglýsingar og kynningu ferða, segir Kristín.

Hverjir eru að koma þessar ferðir? –Það er bara alls konar fólk. Mest hafa heimamenn verið að koma en ferðirnar eru líka farnar að spyrjast út í næstu héruð en við höfum fengið Eyfirðingana aðeins í heimsókn til okkar. Eins kom hópur frá höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi.

Hvernig byggjast ferðirnar upp? –Við bjóðum bæði upp á rútuferðir og gönguferðir með leiðsögn og síðan er alltaf boðið upp á hressingar. Á Flugumýri hefur Anna boðið gestum upp á kaffi og heimabakkelsi og síðan höfum við líka verið bæði í Hótel Varmahlíð og Áskaffi. Þannig að hressingin er ekki alltaf á sama stað enda eru ferðirnar á svo mörgum stöðum.

 

Í vikunni var hópurinn sem að verkefninu stendur að hlaða vörðu á Róðugrund en þar er ætlunin að setja upp róðukross þar var áður róðukross reistur eftir að Brandur Kolbeinsson. Foringi Ásbirninga var tekinn af lífi eftir Haugsnesbardaga.

 

 

 

Hvað með þennan viðburðadag verður hann eitthvað frábrugðin öðrum ferðum á ykkar vegum? –Jú, hann er frábrugðin að því leyti að það er dagskrá allan daginn sem byggist upp bæði á fræðslu og skemmtun. Dagskráin hefst klukkan 10 um morguninn þar sem Einar Kárason verður með inngang að Sturlungu fyrir þá sem ekki þekkja vel til sögunnar. Um leið hefst skemmtileg dagskrá fyrir börnin en hún verður frá 10 – 12. Klukkan 11 verður síðan farið að Víðimýri þar verður dagskrá um Kolbein Tumason og söngur. Meðal annars syngur Helga Rós ljóð Kolbeins Tumasonar Heyr Himnasmiður og Sirrý í Glaumbæ verður með pistil um Kolbein.

Í hádeginu verður síðan boðið upp á súpu í Hótel Varmahlið. Klukkan hálf tvö verðum við aftur farin af stað en þá verður athöfn á Róðugrund þar sem krossinn verður vígður. Síðan verður gönguferð með leiðsögn, fyrir þá sem vilja, yfir að Flugumýri. Á leiðinni þangað verður komið við á Haugsnesgrundum þar sem  Sigurður Hansen er byrjaður að stilla upp grjóther, einn hnullungur fyrir hvern mann sem þátt tók í Haugsnesbardaga. Síðan geta þeir sem vilja gengið áfram frá Flugumýri og upp á Virkishól en þar eru friðlýstar fornminjar sem taldar eru verið leifar af virki Kolbeins unga. Um kvöldið verður síðan skemmtun í Miðgarði. Þar verður boðið upp á mat að hættu Sturlunga undir öruggri og án efa skemmtilegri veislustjórn  Eyþór Árnason frá Uppsölum. Einar Kárason verður með erindi, Agnar á Miklabæ verður með pistil auk þess sem boðið verður upp á fróðleik um matarmenningu miðalda. Rúsínan í pylsuendanum eru síðan Voces Thule sem syngja vísur og ljóð úr Sturlungu.

 

Dagurinn er styrktur af Menningarráði  og er dagskráin yfir daginn fólki að kostnaðarlausu en síðan þarf fólk að borga sig inn á skemmtunina um kvöldið.

Hvað með dagskránna og gönguferðirnar eru þær við allra hæfi eða þarf fólk að vera í gönguformi? –Gönguleiðin er tiltölulega létt, gengið verður eftir grundum að Flugumýri og þau sem vilja geta síðan fengið sér lengri gönguferð upp á sjálfan hólinn, segir Kristín að lokum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir