Ætla að léttast um 99 kíló
Nýr þreksalur var tekinn í notkun á föstudag í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi. Tveir einkaþjálfarar voru mættir á staðinn og kynntu gestum og gangandi meðferð tækjanna og voru að auki með ráðgjöf varðandi hreyfingu og æfingar í og án tækja. Einnig gátu gestir prófað tækin á eigin vegum.
Við þetta tilefni tók Kári Kárason, formaður bæjarráðs, til máls og færði öllum viðstöddum kveðjur bæjarstjórnarinnar. Hann upplýsti þar að bæjarstjórnin og bæjarstjórinn hefði á dögunum ákveðið að sýna gott fordæmi í heilsurækt en þeir mættu allir á viktina út við bryggju og létu vigta sig og reyndust þeir vera 990 kg. Því var ákveðið að 10% fita skyldi fjúka eða 99 kg samtals fyrir 15. maí n.k. en þá stendur til að vígja nýju sundlaugina. Þessu til staðfestingar fylgir hér með mynd af köppunum án nýjasta meðlims bæjarstjórnarinnar Þórhalls Barðasonar en hann átti ekki heimangengt þennan dag.
Vilhjálmur K. Stefánsson mun verða þeim innan handar á tímabilinu og sjá um æfingaáætlanir og vigtun. Húnahornið segir frá þessu en þar verður fylgst grant með félögunum og lesendur upplýstir reglulega um árangurinn.
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.