Aðalskipulag Skagafjarðar staðfest með fyrirvörum

Skipulagsstofnun hefur staðfest aðalskipulag sveitarfélagsins Skagafjarðar með frestun á þeim svæðum sem sveitarstjórn leggur til og á því svæði sem Vegagerðin leggur til að hringvegur 1 fari um í nýrri legu frá Arnarstapa að Sólheimagerði. Á fundi Skipulags- og byggingarnefnd fagnar ráðið að skipulagið sé staðfest en harmar  þá afstöðu Skipulagsstofnunar að leggja til við  Umhverfisráðherra að fresta skipulagi á því svæði sem Vegagerðin leggur til að Hringvegur 1 fari í nýrri legu um Skagafjörð.

Fyrir þeirri afgreiðslu Skipulagsstofnunar telur Skipulags- og byggingarnefnd hæpin rök. Sveitarstjórn fer með stjórn skipulagsmála í héraði og telur að Skipulagsstofnun eigi að samþykkja þá tillögu Sveitastjórnar Skagafjarðar að fara í samstarf við Vegagerðina um skipulag á umræddu svæði. Sveitastjórn Skagafjarðar hefur lýst yfir vilja sínum til að vinna að lausn þessa máls í samráði við Vegagerðina og hlutaðeigandi aðila eins og lög gera ráð fyrir. Það teljum við vera góð vinnubrögð og líkleg til farsællar lausnar.
 
Í bréfi dagsettu 18.12.2009 til Vegagerðarinnar sem einnig var sent Skipulagsstofnun er eftirfarandi rökstuðningur Sveitarstjórnar settur fram.
 
"Með breytingu á legu Hringvegar, fellur Varmahlíð úr leið, en hún er mikilvæg þjónustumiðstöð fyrir íbúa í framhluta sveitarfélagsins. Leiða má líkur að því að ef hún fellur úr alfaraleið verði ekki rekstrargrundvöllur fyrir þeirri þjónustu og verslun sem er í dag. Slíkt gengur þvert á stefnu sveitarfélagsins. Á meðan ekki liggja fyrir áætlanir um hvernig þá verði unnt að tryggja þjónustu og verslun í þessum hluta sveitarfélagsins og samanburður á lagfæringu Hringvegarins um Varmahlíð og fyrirliggjandi tillögu Vegagerðarinnar m.t.t. umferðaröryggis, mun Sveitarfélagið Skagafjörður ekki breyta legu Hringvegarins. Það er hins vegar vilji sveitarfélagsins að leita samráðs við Vegagerðina um undirbúning að endurskoðun á stofnvegakerfi sveitarfélagsins í kjölfar staðfestingar á aðalskipulaginu. Til marks um það hefur verið gerð grein fyrir tillögum Vegagerðarinnar á skýringaruppdrætti í Aðalskipulagi Skagafjarðar og sveitarfélagið hyggst ekki gera ráð fyrir mannvirkjum á eða í nágrenni veglína sem Vegagerðin leggur til vegna styttingar Hringvegar. "
 
Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við Sveitarstjórn að Umhverfisráðherra verði gerð grein fyrir sjónarmiðum Sveitarstjórnar og óski eftir að staðfestingu Aðalskipulags Skagafjarðar 2009-2021 verði hraðað sem mögulegt er

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir