Að ná markmiðum sínum er virkilega góð tilfinning
Skagfirðingurinn Þuríður Elín Þórarinsdóttir gerði sér lítið fyrir um miðjan september og hljóp rétt rúma 100 kílómetra í Bakgarðshlaupinu sem haldið var í Reykjavík 16. september síðastliðinn. Bakgarðurinn er hlaup þar sem farinn er 6,7 km hringur á hverjum klukkutíma þar til einn stendur eftir sem sigurvegari. Hringurinn var að þessu sinni í Heiðmörk en hann byrjaði og endaði við Elliðavatnsbæ. Viðtalið var birt í 37.tölublaði Feykis.
Þuríður er fædd og uppalin á Króknum, dóttir Þórarins Hlöðverssonar og Þóreyjar Eyjólfsdóttur, gift Rúnari Guðmundssyni og á með honum þrjú börn. Hún starfar sem aðalbókari hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.
Þuríður er ekki að taka þátt í fyrsta skipti í Bakgarðinum því hún hafði áður tekið þátt í hlaupinu í lok apríl en Bakgarðurinn er hlaupinn vor og haust. Í vor hljóp hún átta hringi í Öskjuhlíðinni eða 53,6 km. „Ég ákvað að taka þá keppni sem undirbúning fyrir Laugavegur Ultra-hlaupið, sem ég tók þátt í nú í sumar, þar sem farin er 55 km leið frá Landmannalaugum til Þórsmerkur. Það var virkilega skemmtilegt hlaup í sannkallaðri náttúruperlu. Hlaup sem ég mun klárlega taka þátt í aftur og mæli með fyrir alla sem hafa áhuga á að hlaupa á fjöllum,“ segir Þuríður sem lét Bakgarðinn og Laugaveg Ultra ekki duga í sumar því hún tók einnig þátt í Súlur Vertical, Hólmsheiðarhlaupinu, Helgill Ultra og Hvítasunnuhlaupinu og mælir Þuríður með þeim öllum.
Ertu búin að vera lengi með hlaupabakteríuna? „Það má segja að ég hafi fengið hlaupabakteríuna fyrir alvöru í fyrrasumar en ég fór svo að æfa markvisst undir leiðsögn þjálfara um áramótin síðustu en þá skráði ég mig í Ultra hlaupafjarþjálfun hjá UltraForm,“ segir Þuríður. Síðan bætir hún við að til að æfa fyrir þessa tegund langhlaupa þarf að „hlaupa og hlaupa svo meira.“
En aftur að Bakgarðshlaupinu getur þú sagt okkur aðeins frá þátttöku þinni þar? „Já, mér þótti virkilega gaman í Bakgarðinum í apríl og var strax ákveðin í að taka þátt aftur í þessu hlaupi. Ég var þó ekki með nein sérstök markmið þegar ég skráði mig en svo þegar leið að keppninni og allt hafði gengið upp í sumar, æfingar og keppni, þá langaði mig að reyna við 15 hringi eða 100 km. Það tókst, ég hljóp draumamarkmiðið mitt, 100,5 km eða 15 hringi. Ég hóf sextánda hringinn en tankurinn var tómur, markmiðinu náð og ég ákvað að vera skynsöm og hætta.“
Langaði þig aldrei að hætta fyrr? „Þetta var krefjandi og þá spilaði veðrið töluvert inn í aðstæður í þetta skiptið. Það komu hringir þar sem mig langaði bara að hætta og gefast upp, var rennandi blaut og stundum leið mér eins og ég væri að hlaupa á staðnum þegar mótvindurinn var sem mestur. Veðrið hafði mikil áhrif á alla, það er mikil áskorun að hlaupa í svona grenjandi rigningu og brjáluðu roki. En ég þakka þrjóskunni fyrir að hafa ekki hætt. Á þessum tímapunkti fannst mér tíu hringir í viðbót hljóma mjög mikið og ákvað ég því að setja mér nýtt markmið vegna aðstæðna. Ég var ákveðin í að klára 9 hringi, fara einn hring lengra en ég gerði í vor. Þegar það var í höfn, þá fannst mér nú ekki mikið mál að taka einn hring í viðbót og svoleiðis rúllaði þetta þar til ég kláraði 15. hring og sem betur fer var veðrið orðið betra í síðustu fimm hringjunum þar sem það fór að dimma og það er alveg áskorun út af fyrir sig að hlaupa í svarta myrkri, sérstaklega hlaupaleið sem þú þekkir lítið,“ segir Þuríður.
Gefur manni mikið að fá hvatningu
Nú tekur þetta langan tíma, varstu með einhvern þér til aðstoðar? „Eftir átta hringi mega keppendur fá aðstoð á milli hringja og Rúnar, maðurinn minn, var með mér. Það var alveg nauðsynlegt að hafa aðstoðarmann, því þegar þú hefur aðeins 5-10 mínútur milli hringa til að skipta um föt, næra þig og fylla á brúsann, þá munar miklu að hafa einhvern til að aðstoða sig og létta undir. Ég, sem dæmi, skipti tvisvar um peysur og jakka. Í fyrra skiptið var það áður en Rúnar mátti aðstoða og það var mjög erfitt, tíminn sem maður fær er ekki mikill og að skipta um föt í þessu veðri er ekkert grín. En í seinna skiptið þá fékk ég aðstoð og þá gekk það mun betur. Það hefði verið fínt að geta skipt oftar um föt í fyrstu hringjunum þegar rigningin var sem mest en það tók of mikinn tíma og orku frá manni í hvíldinni milli hringja. Svo það var ekkert annað í boði en að hlaupa rennandi blautur.“
Tölum aðeins um næringuna hvernig gengur það fyrir sig í svona rosalega löngu og krefjandi hlaupi? „Ég var með fullt af næringu með mér en ég verð frekar lystarlaus á hlaupum þannig ég reyni að koma einhverju ofan í mig. Ég var með kolvetnisblöndu í brúsa sem hélt mér alveg gangandi en á nokkura hringja fresti er boðið upp á mat. Það var súpa, pasta, pizza og skyr, einnig er drykkjarstöð með ýmsu góðgæti sem maður getur nýtt sér.“
En hvernig heldur maður haus í svona löngu hlaupi? „Í svona krefjandi hlaupi, þar sem maður þarf að halda haus og gefast ekki upp, gefur það manni mikið að fá hvatningu í brautinni og þegar þú sérð óvænt vini þína sem þú áttir ekki von á kalla á þig og hvetja þá er það ótrúlega gaman og gefur manni hvatningu og orku til að halda áfram. Ég hlustaði líka aðeins á tónlist inn á milli en svo var ég einnig að spjalla við aðra hlaupara í brautinni.“
Í hvernig standi er líkaminn eftir svona langhlaup? „Eftir svona langt hlaup, og þá sérstaklega þegar maður hefur ekki hlaupið svona langt áður, þá verður maður vel stífur og þreyttur í fótunum dagana eftir. Það er mikil þreyta í kerfinu og góð endurheimt skiptir miklu máli til að koma sér í gang aftur. En það er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í hvíld og endurheimt til að forðast meiðsli,“ segir Þuríður.
Þegar viðtalið er tekið er vika frá hlaupi og Þuríður er bara öll að koma til, búin að hvíla alveg og finnur hvergi til, en hún segist þó ennþá finna aðeins fyrir þreytu í kerfinu. „Þetta er bara svo skemmtilegt og að ná markmiðum sínum er virkilega góð tilfinning. Ég er bara rétt að byrja í hlaupunum, nú tekur við hvíldartímabil og svo uppbyggingartímabil og svo byrjar keppnistímabilið aftur í vor. Ég er alveg ákveðin í að fara aftur í þetta hlaup í vor þegar það verður haldið í Öskjuhlíðinni og stefni á að hlaupa ennþá lengra þá.“
Feykir óskar Þuríði innilega til hamingju með þennan árangur og það verður mjög spennandi að fylgjast með þessari hlaupadrottningu í framtíðinni því það er ekki annað að heyra en að hún sé rétt að byrja.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.