Að lokinni leikskólagöngu: Takk! | Lára Halla Sigurðardóttir skrifar
Í mínum huga er það afrek að ljúka leikskóla. Það er meira en að segja það að mæta á hverjum degi og dvelja í rými með hópi annarra barna á þínum aldri og sýna þeim vinsemd og virðingu þó að sumir séu alltaf með leiðindi og hávaða.
Að þurfa að taka þátt í skipulögðu starfi þó að þér finnist það ekki alltaf spennandi, að fara eftir öllum þessum reglum og smakka alltaf matinn sem borinn er á borð. Að klæða sig enn og aftur í útifötin og fara út í frost, rigningu eða rok. En svona er lífið nefnilega. Það er allskonar og í leikskólanum læra börnin svo ótal margt sem þau búa að á leið sinni í gegnum lífið.
Dóttir mín lauk formlega leikskólagöngu sinni í dag þegar rúmlega fjörutíu börn fædd árið 2018 voru útskrifuð úr Ársölum á Sauðárkróki.
Ég er innilega þakklát þeim fjölmörgu sem komu að því að gera leikskólagöngu hennar farsæla og ánægjulega.
Takk fyrir að sýna bæði börnum og foreldrum mikla þolinmæði.
Takk fyrir að snýta, skeina og skipta um bleyjur.
Takk fyrir að hughreysta þegar háværir, rauðklæddir menn í stígvélum komu óvænt í heimsókn.
Takk fyrir að hlusta á sögurnar. Þær eru margar, misgóðar og sumar mjög langar. Ég álasa ykkur ekki fyrir að hafa stundum misst þráðinn.
Takk fyrir að þrífa leikskólahúsnæðið. Það er miklu notalegra að sitja og leika á hreinu gólfi.
Takk fyrir að strauja perlurnar. Það er hvorki einfalt né skemmtilegt verk.
Takk fyrir að leggja hönd á plóg í foreldrafélaginu. Sjálfboðaliðastarf sem er mikilvægt og stundum vanmetið.
Takk fyrir að efla hljóðkerfisvitundina. Það var kannski ekki spennandi að klappa öll þessi atkvæði en það mun hjálpa börnunum að læra að lesa.
Takk fyrir að vinna með grímu í marga daga í heimsfaraldri og finna leiðir til að halda leikskólanum opnum.
Takk fyrir að skrifa vikupóstana. Það var svo gaman að lesa hvað þið höfðuð fyrir stafni.
Takk foreldrar hinna barnanna fyrir spjallið í fataklefunum, á leikskólalóðinni og í íþróttaskólanum.
Takk fyrir að minna okkur á að koma með fleiri bleyjur, aukaföt, stærri regngalla og föt fyrir græna daginn.
Takk fyrir að hvetja þau til að smakka matinn. Og takk fyrir að elda og hafa til allar þessar máltíðir.
Takk fyrir að halda lóðinni og leiktækjunum við.
Takk fyrir að hjálpa þeim með samskiptin. Það er ekki einfalt þegar öll vilja leika með rauða bílinn. Eða þegar einhver má ekki leika með hinum.
Listinn er ekki tæmandi.
Það er ekki alltaf auðvelt að vera foreldri leikskólabarns en með allt þetta fólk með sér í liði er hlutverkið svo miklu skemmtilegra.
Fyrir mér er leikskólinn ekki geymslustaður. Það er staður þar sem börnin okkar fá að vaxa og dafna á líkama og sál. Þau efla félagsþroska og seiglu og öðlast smá saman meira sjálfstæði, getu og færni til að tækla hin ýmsu verkefni sem lífið færir þeim.
Kæra starfsfólk Ársólar og Fífuborgar í Reykjavík og Ársala á Sauðárkróki. Kærar þakkir!
Lára Halla Sigurðardóttir
Höfundur er þriggja barna móðir og íslenskufræðingur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.