Að gefnu tilefni
Talsverð umræða hefur skapast um þá ákvörðun Fisk Seafood að leggja niður starf framkvæmdastjóra Iceprotein og Protis. Eðlilega er spurt um ástæður. Af því tilefni vil ég koma eftirgreindu á framfæri: Framkvæmdastjórinn, Hólmfríður Sveinsdóttir, hefur unnið afar gott vísinda- og þróunarstarf fyrir félögin á undanförnum árum. Afurðirnar eru rós í hnappagat Hólmfríðar og fyrir þetta starf eru henni færðar bestu þakkir. Vísindastarf af þessum toga tekur hins vegar til sín mikið fé og taprekstur undanfarinna ára mælist í hundruðum milljóna króna þegar allt er talið.
Á þeirri braut verður ekki haldið endalaust áfram án þess að staldra við og leita leiða til þess að draga úr þróunarkostnaði og koma á betra jafnvægi í rekstrinum. Vonandi er að leiðir finnist til þess að varðveita framleiðsluþátt starfseminnar og styrkja stöðu Protis fiskproteinvaranna á markaði. Eðlilegar rekstrarforsendur verða að finnast og langtímamarkmiðið í þeim efnum er að sjálfsögðu í þessari starfsemi eins og annarri að viðunandi arðsemi fáist frá rekstrinum.
Hagræðingaraðgerðir af þessu tagi eru alltaf sársaukafullar og ekki síst þegar í hlut á stórhuga frumkvöðull og vísindamaður eins og Hólmfríður er. Þarna, eða annars staðar í þeirri endurskipulagningu sem ég hef komið að á undanförnum mánuðum og misserum, er ég að sjálfsögðu ekki einn að verki. Það er hins vegar bæði í mínum verkahring að gera tillögur um breytingar og framkvæma þær ef um þær er samstaða. Það reyni ég að gera eins vel og mér er frekast unnt og vissulega hefði ég kosið að atburðarásin í þessu tilfelli hefði verið önnur en raun varð á. Það þykir mér leitt en Hólmfríði fylgja bestu óskir um velgengni á þeim vettvangi sem hún kýs að snúa sér að.
Sauðárkróki 7. febrúar 2019
Friðbjörn Ásbjörnsson
framkvæmdastjóri Fisk Seafood.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.