Ábyrgð dýravelferðar liggur ávallt hjá eiganda
Vegna umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um velferð búfjár á tilteknum bæ í Borgarfirði, hefur Matvælastofnun sent út fréttatilkynningu til að árétta að stofnunin sé með málið til meðferðar. Þar kemur fram að á meðan vinnslu málsins stendur mun stofnunin sjá til þess að allir gripir búsins hafi aðgang að nægu heyi og vatni.
„Vegna stjórnsýslu- og persónuverndarlaga getur stofnunin ekki tjáð sig um aðgerðir sem unnið er að. Af þeim sökum er fréttaflutningur og umfjöllun á samfélagsmiðlum einhliða. Í einhverjum tilfellum hafa rangar ályktanir komið fram sem gerir það að verkum að almenningur fær ekki rétta mynd af stöðu mála og þeim afskiptum sem stofnunin hefur haft af búrekstrinum.
Matvælastofnun ítrekar að ábyrgð á dýravelferð liggur ávallt hjá eiganda sem ber að tryggja aðbúnað, heilsu og velferð sinna dýra. Hlutverk Matvælastofnunar er hins vegar að sjá til þess að dýraeigandi sinni skyldum sínum og grípi til aðgerða ef svo er ekki. Við þær aðstæður er í forgangi að dýrum sé komið til hjálpar, en áframhaldandi úrvinnsla málsins fer eftir þeim lagaramma sem stofnuninni starfar eftir,“ segir í tilkynningu MAST.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.