N4 sýnir Á frívaktinni á sjómannadaginn
Síðustu sýningar Leikfélags Sauðárkróks á leikritinu Á frívaktinni verða nú um helgina og sú allra síðasta nk. sunnudag. Aðsókn hefur verið mjög góð og uppselt á flestar sýningar og er svo einnig á þessar síðustu. Að sögn Sigurlaugar Dóru Ingimundardóttur, formanns LS, er alltaf slæmt að hætta fyrir fullu húsi en ekki er mögulegt að halda áfram vegna ýmissa ástæðna.
En þeir sem ekki komast í Bifröst þurfa þó ekki að örvænta því sýningin var tekin upp og verður sýnd á sjónvarpsstöðinni N4 skömmu eftir að sýningu lýkur hjá leikfélaginu eða kl. 20 á sunnudagskvöld, sem vill svo til að er einmitt á sjómannadaginn. Á það einkum vel við þar sem sögusvið leikritsins er sjávarþorp, einhvers staðar á Íslandi á tímum síldaráranna þegar síldin var duttlungafull og hafði mikil áhrif á lífsgæðin í sjávarþorpunum en sagan gerist á þeim tímum þegar síldin er að hverfa frá Íslandsströndum.
Fólk ætti að athuga að aðeins verður sýnt í þetta eina sinn á N4 þar sem verkið fer ekki í endursýningu eða inn á netið. Áhugasamir ættu að sitja spenntir við skjáinn kl. 20 nk. sunnudagskvöld og stilla á N4.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.