Á frívaktinni af stað á ný - "Mæli ég eindregið með því að fjölmenna á þessa skemmtilegu sýningu"

Leikarar og starfsfólk sýningarinnar fengu sjálfu með frumsýningargestum að loknu uppklappi og blómaafhendingu til leikstjóra og formanns. Mynd: Leikfélag Sauðárkróks.
Leikarar og starfsfólk sýningarinnar fengu sjálfu með frumsýningargestum að loknu uppklappi og blómaafhendingu til leikstjóra og formanns. Mynd: Leikfélag Sauðárkróks.

Sýningar Leikfélags Sauðárkróks á leikritinu Á frívaktinni fara af stað á ný eftir tveggja vikna hlé vegna Covid aðgerða í kjölfar hópsmits sem kom upp á Sauðárkróki. Leikfélagið náði að frumsýna verkið föstudagskvöldið 7. maí en daginn eftir var allt komið í lás. Næsta sýning á morgun fimmtudag. Alls er gert ráð fyrir níu sýningum þetta leikár og samkvæmt sýningarplani verður lokasýning þriðjudaginn 1. júní. Soffía Helga Valsdóttir kíkti í leikhús og ritaði umsögn um upplifun sína á frumsýningu LS, sem birtist í 19. tbl. Feykis.

Hlátur og grátur Á frívaktinni

80 ár eru síðan Leikfélag Sauðárkróks var endurvakið og að því tilefni býður leikfélagið upp á alheimsfrumsýningu á leikritinu Á frívaktinni eftir Pétur Guðjónsson. Frumsýnt var fyrir fullu húsi, eins og sætaskipan leyfði, föstudaginn 7. maí. Skelltum við hjónin okkur á sýninguna fyrir hönd Feykis og tókst okkur að gleyma þeim ófögnuði sem herjar á samfélag okkar um stund en fyrstu fréttir af mögulegu smiti voru farnar að berast um bæinn.

Í stuttu máli sagt er hér á ferð saga sem er Íslendingum allkunn, falleg og tilfinningarík saga bæjarbúa í litlu sjávarplássi í kringum síldarárin. Við fáum að kynnast gleði og sorgum þeirra, draumum og harðri lífsbaráttu, líkamlegri sem andlegri. Saman tvinnast þetta við landsþekkt sjóaralög sem ylja gömlum minningum og fara leikarar á kostum í dans og söng, allir sem einn. Ingi Þór Gunnarsson leikur Daníel, ungan dreng sem hugsar um lítið annað en að flýja óregluna heima fyrir og komast á sjó og fáum við að fylgjast með lífi hans, sorgum og ástum. Karakterarnir eru skemmtilegir, einhverjir frekar skrautlegir og aðrir beinskeyttir með eindæmum.

Sviðsmyndin er einstaklega vel heppnuð. Einföld, falleg og svínvirkar. Um leið og gengið er inn í salinn er áhorfandinn mættur á bryggjuna, innan um fugladrit, bryggjustólpa og sjávarhljóð ásamt endurkasti frá sjónum. Sviðsmyndin breytist svo hægt fyrir framan augun á manni í gengum söguna, þar sem farið er frá þilfarinu á Aðalsteini Jónssyni og allt inn í eldhús hjá Sigga lamaða (Inga Dóra Ingimarsdóttir) og Gerði tvöföldu (Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir), með aðstoð leikara og sviðmanna sem tvinnast inn í söguna.

45 manns koma að sýningunni og þar af eru 23 leikarar sem fara með 25 hlutverk og er það Róbert Smári Gunnarsson sem fer með þrjú hlutverk (Árni í alvörunni, Einsi kaldi og Þorsteinn Gauti) og hefur hann mátt hafa sig allan við í einhverjum tilfellum að skipta um buxur. Mikið er lagt upp úr smáatriðum í sminki og búningum og tekst vel til. Pungurinn á Sigga lamaða blasir vel við áhorfendum á fremstu bekkjunum og hrukkurnar á Jóhönnu gömlu (Elva Björk Guðmundsdóttir) sjást vel af aftasta bekk, eflaust pungurinn líka. Leikurum tekst að koma hlutverkum sínum vel til skila og augljóst að hver og einn leggur sig mikið fram. Stóð ég mig stundum að því að fylgjast vel með hvort einhverjar brosviprur sæjust ekki í munnvikunum á fýlupúkanum honum Jóa skít sem Guðbrandur J. Guðbrandsson leikur en honum hefur tekist að fela þær vel ef einhverjar voru.

Leikfélag Sauðárkróks og Pétur Guðjónsson eiga hrós skilið fyrir að koma verkinu á fjalirnar við þessar erfiðu aðstæður sem herja á okkur um þessar mundir. Æfingatímabilið var óvenju langt þar sem upphaflega átti að sýna þetta leikrit í fyrra en frestaðist vegna samkomutakmarkana. Oft þurfti að æfa við óvenjulegar og erfiðar aðstæður og gera breytingar á hlutverkaskipan. Nú þegar loksins var hægt að hefja sýningar fer ekki betur en svo að fresta verði öllum sýningum í bili á meðan verið er að ná utan um ástandið í bænum og hefta útbreiðslu veirunnar. En fugladritið bíður á bryggjustólpunum í Bifröst og mæli ég eindregið með því að fjölmenna á þessa skemmtilegu sýningu þegar má, gleyma stað og stund og næra nostalgíuna örlítið. Til hamingju LS og Pétur.
/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir