82% þjóðarinnar vilja Reykjavíkurflugvöll áfram

Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson

Í könnun sem Gallup gerði fyrir ríkisútvarpið í sept. 2013  kom í ljós að  73 prósent Reykvíkinga vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri. Heildarstuðningur þjóðarinnar við flugvöllinn í Reykjavík var 82 prósent. 

Lítil ástæða er til að ætla að  þessi afstaða þjóðarinnar hafi breyst. Því er það alveg óskiljanlegt að ennþá og stöðugt þurfi að takast á um þetta mikla hagsmuna- og öryggismál þjóðarinnar sem flugvöllur  í höfuðborg allra landsmanna er.

Ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um lokun neyðarbrautarflugvallarins  í Vatnsmýrinni hefur verið mótmælt víða og sérstaklega af íbúum landsbyggðarinnar sem búa við takamarkaðri þjónustu í heimabyggð en áður og stóraukinn ferðamannafjölda sem krefst læknis og sjúkraþjónustu.

Nú síðast  sendi  Sveitarstjórn Húnavatnshrepps frá sér ályktun og „ átelur harðlega lokun suð-vestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar sem kölluð er neyðarbraut.  Áréttað er að Reykjavík sé   höfuðborg landsins, og „ sýni mikið metnaðar- og ábyrgðarleysi gagnvart landsbyggðarfólki í neyðartilfellum sjúkraflugs með lokun brautarinnar“.

Bent hefur verið ítrekað á að lending á neyðarbrautinni svokölluðu, sem er NA/SV flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli, hafi skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi og oft í erfiðum tilfellum þar sem um líf og dauða sé að tefla.

  Með því að draga saman læknisþjónustu á landsbyggðinni eykst álagið á sjúkraflutninga bæði með sjúkrabílum og sjúkraflugi. Æ stærri hluti læknisþjónustu og bráðaviðbragða hefur verið þjappað saman á Landspítalanum í Reykjavík. Meginhluti opinberar þjónustu og stjórnsýslu er í Reykjavík.  Hins vegar er verð á fargjöldum í innanlandsflugi allt of hátt og mikilvægt að stjórnvöld endurskoði hlut sinn í kostnaði við þær almenningsamgöngur sem flugið er. 

Greiðar, öruggar og hraðar flugsamgöngur milli höfuðborgar og landsbyggðar skipta  miklu máli í að jafna aðstöðumun fólks eftir búsetu í landinu.

Bjarni Jónsson

Býð mig fram til að leiða lista VG í Norðvesturkjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir