80 ára afmælishátíð sundlaugarinnar í Varmahlíð
Sundlaugin í Varmahlíð fagnaði nýlega 80 ára vígsluafmæli og var þess minnst með veglegri veislu fimmtudaginn 29. ágúst. Samhliða afmælisveislunni var efnt til Grettissunds en í því var fyrst keppt á vígsluhátíð sundlaugarinnar fyrir 80 árum síðan.
Sundlaugin í Varmahlíð var vígð þann 27. ágúst 1939 að viðstöddu fjömenni. Laugin var byggð á árunum 1938-1939 og kostaði þá tæpar 30.000 krónur að því er segir í Byggðasögu Skagafjarðar, II. bindi. Varmahlíðarfélagið stóð að byggingunni ásamt fjölmörgum sjálfboðaliðum úr sveitinni. Yfirsmiður við laugina var Hróbjartur Jónasson frá Hamri og honum til aðstoðar var Ólafur Kristjánsson smiður, kenndur við Ábæ í Austurdal. Var hér um mikið mannvirki að ræða en á þessum árum voru engin tæki tiltæk önnur en skóflan og hakinn og allt efni flutt með hestakerrum. Laugin var 33,35 m löng og 12,5 m breið, mesta dýpt 3,03 m en grynnst 0,83 m.
Það voru kennarar og nemendur Varmahlíðarskóla ásamt starfsfólki íþróttamiðstöðvarinnar í Varmahlíð sem stóðu að afmælishátíðinni. Afmælishátíðarnefnd var skipuð þeim Sigurlínu Hrönn Einarsdóttur, íþróttakennara, Trostan Agnarssyni, kennara, og Moniku S. Borgarsdóttur, forstöðumanni íþróttamiðstöðvarinnar.
Samkoman hófst með skrúðgöngu nemenda og starfsfólks skólans frá skólahúsnæðinu að íþróttamiðstöðinni þar sem marserað var við undirleik kennara og nemenda Tónlistarskóla Skagafjarðar. Samkomuna setti Hanna Dóra Björnsdóttir, skólastjóri Varmahlíðarskóla, en Trostan Agnarsson kynnti dagskrá.
Erindi á samkomunni fluttu þau Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Akrahrepps sem í máli sínu ræddi m.a. um mikilvægi sundiðkunar og annars íþróttastarfs fyrir samfélagið og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem gerði þau lífsgæði sem fólgin eru í jarðhitanum að umtalsefni ásamt því að fjalla um sögu sundkennslu í Skagafirði. Þá flutti Lydía Einarsdóttir, nemandi Varmahlíðarskóla, sögu sundlaugarinnar í samantekt Sigurðar Haraldssonar á Grófárgili og Elsa María Guðmundsdóttir, stjórnarmaður í Sundsambandi Íslands, flutti ávarp og færði sundlauginni gjöf í tilefni afmælisins.
Nemendur skólans sýndu dans og sungu nokkur lög við undirleik Stefáns R. Gíslasonar og að því loknu var boðið til afmæliskaffis.
Dagskránni lauk svo með Grettissundi og var það vel við hæfi þar sem sú keppni var fyrst háð við vígslu laugarinnar árið 1939. Var þá gefinn bikar, Grettisbikarinn, sem veita skyldi sem verðlaun fyrir sundið og hlyti handhafi hans sæmdarheitið sundkappi Skagafjarðar. Grettissund er 500 m sund með frjálsri aðferð og er öllum Skagfirðingum með heimili í Skagafirði heimil þátttaka. Athyglisvert var að konur máttu taka þátt í keppninni en óheimilt var að sæma þær titlinum. Árið 1996 var svo gefinn verðlaunabikar fyrir sundkerlingu Skagafjarðar þegar sunddeild Tindastóls setti reglur um þau verðlaun.
Tveir karlar og þrjár konur þreyttu sundið að þessu sinni. Sæmdarheitið sundkappi Skagafjarðar hlaut Steinar Óli Sigfússon sem vann Grettisbikarinn á tímanum 10.23 mín. en Óskar Aron Stefánsson varð í öðru sæti. Sara Jane vann í kvennaflokki á tímanum 7,55 mín. og ber sæmdarheitið sundkona Skagfirðinga. Selma Barðdal varð í öðru sæti og Árný Lilja Árnadóttir í því þriðja.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á afmælishátíðinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.