2 og 3 dagur í Delhí

 

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Þuríður Harpa heldur áfram að leyfa okkur að fylgjast með ferð hennar til Delhí en þegar hér er komið sögu er Þuríður í þann mund að fá sína fyrstu stofnfrumusprautu.  Líkt og áður lýsir hún fábrotnum aðstæðum á Indlandi. Hægt er að styrkja ferð Þuríðar inni á heimasíðu hennar www.oskasteinn.com

 

Við sváfum til kl. 9 þá var bankað og lítill indverji rétti okkur London Times og Delhí Times. Við vorum rétt klædd þegar einhver doktor kom og spurði hvort ég væri ekki með skýrslur meðferðis frá Íslandi. Ég varð hálfhvumsa og sagði honum að þær ásamt cd diskum með röntgen myndum af hryggnum á mér hefði verið sent dr. Geetu Shroff í vetur. Hann sagðist þá bara eiga eftir að tala við hana um þetta, einhvern veginn fór heilmikill tími hjá læknum og hjúkrunarfólki í að spyrja spurninga sem þau hefðu ekki þurft að spyrja ef þau hefðu lesið skýrsluna sem send var og skoðað diskana og oft var ég spurð að því sama af læknunum, svona eins og þeir töluðu ekkert saman og ráðfærðu sig ekkert hver við annan, en allir bera þeir mikla virðingu fyrir Geetu sem virtist þó ekki hafa upplýst þá um neitt varðandi mig.  Læknirinn sem spurði eftir skýrslunum, sagði mér að ég færi í endurhæfingu eftir hádegi, þannig að við biðum, við notuðum tækifærið og skoðuðum bygginguna, en þrjár hæðir plús jarðhæð og kjallari er í húsin. Herdís var mjög spennt fyrir að sjá endurhæfingasalinn og fórum við niður í kjallara til að kíkja á hann. Ég get ekki sagt annað en að hann er upplifun svona útaf fyrir sig eins og flest hér. Bekkir eru í salnum með líklega 25-30 cm þykkum dýnum þannig að engin leið er fyrir mig að koma mér upp á þá, allt er fábrotið og gamaldags, en þarna var fólk í endurhæfingu og virðist ná árangri þrátt fyrir lítinn og skrýtinn aðbúnað, því er ekki hægt að neita að hver dagur ber í sér nýtt sjokk.  Þegar kl. var orðin 2 spurði ég hjúkkurnar hvort færi ekki að styttast í að ég færi í endurhæfinguna. Þær brostu bara og sögðu að það væri sunnudagur og engin endurhæfing fyrir mig í dag. Við ákváðum þá að fara í ameríska mollið sem aðrir sjúklingar og aðstandendur þeirra höfðu sagt okkur frá, en núna eru hér 17 sjúklingar og amk 1-2 aðstandandi með hverjum þeirra, þannig að maður hittir hér fólk frá Los Angeles, og fleiri stöðum í USA, nokkrir eru frá Ástralíu. Við hittum hér fyrsta Amy en hún er búin að vera hér í mánuð með son sinn sem hlaut mænuskaða fyrir 6 mánuðum. Hún er japani en búsett í LA, hún var enn í sjokki yfir aðbúnaði og hve allt var skítugt, hún treysti ekki indverjunum og leið bara virkilega illa hér. Hún sagðist þó þrauka í þeirri von að sonur hennar fengi einhvern bata. Við hittum líka konu frá Ástralíu, sem var í rafmagnsstól og móður hennar, sú kona fékk mænuskaða fyrir 9 árum. Hún hefur hreyfigetu í handleggjum og þumalputtum en enga hreyfingu í öðrum  puttum. Hún er búin að vera hér í mánuð og á eftir 2 mánuði. Hún var búin að upplifa breytingu á sér og sýndi okkur að hún gat orðið hreyft puttana örlítið til og hún var mjög glöð yfir því.

Við pöntuðum leigubíl með loftkælingu, bíllinn kom, pínulítill svona eins og Fiat Punto. Einhvernveginn tókst Árna að hrúga mér inn í bílinn og síðan var stóllinn rifinn í sundur til að koma honum inn. Svo hófst ferðalagið, og ég get svo svarið það að ég skil ekki hvernig við sleppum við að lenda í árekstri eða nuddast utan í næstu farartæki, ég sit bara stjörf með öndina í hálsinum þegar bílstjórinn treður sér á milli farartæka þar sem mér finnst allsekki vera pláss fyrir bílinn sem við erum á og ekki nóg með það, þar sem maður eru að klessast á milli farartæka treður sér þá ekki  fjölskyldufaðir á mótorhjóli með familíuna aftan á og nær á undraverðan hátt að skjóta sér fram hjá okkur án þess að klemmast á milli. Ferðinni var heitið fram hjá endalausum hreysis mörkuðum þar sem grindum var hróflað upp og drasli hlaðið á þakið og inní sátu háæruverðugir kaupmenn húkandi á hækjum sínum innan um allslags grænmeti og ávexti. Loks komum við að mollinu, fyrir utan urðum við vitni að slagsmálum tveggja götudrengja. Þessi grey litu út fyrir að vera þriggja og fjögurra ára og lauk slagnum þannig að sá litli kleip þann stærri svo fast í bakið að sá stærri haltraði grátandi frá og fleygði sér á næsta götukant. Þegar við komum út hjá mollinu tók við okkur hitasvækja, allir sem ætla í mollið þurfa að fara í gegnum öryggishlið og leitað er á fólki - ef maður er í bíl er hann skoðaður og kíkt í skottið. Loks komumst við inn og viti menn loksins sá maður eitthvað kunnuglegt og þarna var allt hreint. Við þræddum búðirnar enda ætluðum við að eyða þarna 4 klukkutímum og bílstjórinn beið. Þarna var fullt af merkjavörum og allar búðir með útsölur. Við keyptum ekkert en enduðum á efstu hæðinni inni á nýjum grill stað. Maturinn þar var mjög góður og greinilega fínn staður. Síðan var haldið heim á leið, bílstjórinn beið okkar og við lögðum í enn eina hættuförina á pínulitlum skítugum og dælduðum leigubíl með brjáluðum bílstjóra. Þegar heim var komið fékk ég að vita að um morguninn kl. hálfátta ætti ég að skila þvagprufu og blóðprufu, einnig myndi ég fara í einhverjar myndatökur á hitt sjúkrahúsið og einnig færi ég í sjúkraþjálfun og fengi mína fyrstu stofnfrumusprautu. Það var bara allt að gerast!

Um kvöldið byrjaði loftkælingin að leka í byrjun gerðum við lítið, ég hafði á orði við Árna hvort við ættum ekki að kalla á húsvörð eða hjúkku til að vita hvort þetta væri nokkuð eðilegt, hann hélt nú ekki, vildi ekki sjá þessa hottintotta meira en hann þurfti. Ég lét gott heita í bili og við fórnuðum handklæði og glasi undir lekann, þegar það var orðið rennblautt og glasið fullt sættist bóndinn á að ég kallaði á hottintottana. Hjúkka kom inn með kall, en þeir eru greinilega talsvert lægra settir. Hún skipaði honum fyrir og hann baukaði við tækið loks virtist lekinn stöðvast og allt vera komið í lag. Þannig endaði dagur númer tvö í Delhí. Morguninn eftir þurftum við að vakna kl. 7 til að taka þvagprufu, spennandi.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir