17. ársþingi SSNV lokið
17. ársþing SSNV var haldið í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði dagana 21.-22. ágúst síðastliðinn og var ársþing að þessu sinni í boði sveitarfélagsins Skagafjarðar. Á þinginu voru málefni sveitarfélagana til umræðu sem og atvinnu, samgöngu og velferðarmál. Þá var fjallað var um boðaðar breytingar á kosningarlögum til sveitarstjórna. Þá voru þeir málaflokkar sem sveitarfélögin á Norðurlandi vestra standa að í sameiningu til umræðu. Um 50 sveitarstjórnarmenn sóttu þingið. Þingforseti var Sigurður Árnason og varaþingforseti var Bjarni Jónsson.
Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands Íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, fulltrúi Samgönguráðherra ávörpuðu þingið.Ráðherra fjallaði um þá þætti sem hann hyggst leggja áherslu á varðandi þá málaflokka sem heyra undir hans ráðuneyti. Fjallaði hann um boðaða endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu og nýtingu áður ónýttra stofna s.s makríls. Þá fjallaði ráðherra um stöðu og horfur í landbúnaði og kynnti þær breytingar sem hann hefur gert á matvælafrumvarpinu sem hann hyggst leggja fram á næstunni. Að lokum ræddi ráðherra áform um endurskoðun á jarðalögum.
Halldór Halldórsson formaður sambands íslenskra sveitarfélaga fór yfir stöðu sveitarfélagana í ljósi efnahagsástandsins. Fram kom í máli Halldórs að tekjusamdráttur sveitarfélagana er minni en búist var við auk þess sem fjölmargar sparnaðaraðgerðir sem gripið hefur verið til skilað töluverðum rekstarávinningi. Þá hvatti hann sveitarstjórnarmenn til þess að fjalla um málefni sveitarfélagana á jákvæðum nótum.
Stefanía Traustadóttir sérfræðingur á sveitarstjórnarskrifstofu Samgönguráðuneytisins flutti erindi ráðherra sem forfallaðist á síðustu stundu. Í erindinu fjallaði ráðherra um rekstarumhverfi sveitarfélagana og sérstaklega vék hann að afkomu sveitarsjóða á Norðurlandi vestra. Þá fjallaði hann um þau verkefni er varðar tekjuumhverfi sveitarfélagana, en sett hefur verið á laggirnar nefnd sem mun endurskoða tekjustofna sveitarfélagana með það að markmiði að breikka þá, styrkja og meta með hliðsjón af breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þá ræddi ráðherra um endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs, en nefnd undir forystu Flosa Eiríkssonar bæjarfulltrúa í Kópavogi hefur undanfarið unnið að endurskoðun úthlutundarreglna og hlutverki sjóðsins. Að lokum fjallað ráðherra um skýrslu starfshóps undir forystu Hólmfríðar Sveinsdóttur, stjórnsýslufræðings sem fjallaði um framtíð landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í tillögum starfshópsins er m. a lagt til að landshlutasamtökin komi með skilgreindari hætti að byggðaþróunarstarfi og að þeim verði falin ný verkefni á sviði alþjóðlegs samstarfs og skipulagsmála.
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri á Skagaströnd og fulltrúi í lýðræðishópi Sambands Íslenskra sveitarfélaga kynnti starf hópsins. Hlutverk lýðræðishóps var að skoða sérstaklega siðareglur á sveitarstjórnarstigi, kjör sveitarstjórnarmanna, tímasetningu sveitarstjórnarkosninga og lýðræði á sveitarstjórnarstigi með endurskoðun sveitarstjórnarlaga að markmiði.
Magnús Karel Hannesson frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga fjallaði um og kynnti frumvarp til laga um persónukjör. Í erindinu fór Magnús yfir hugmyndafræði og tæknilegar útfærslur á persónukjöri auk þess sem hann kynnti mismunandi aðferðir um persónukjör sem notaðar hafa verð m. a á Norðurlöndunum og á Bretlandseyjum.
Flosi Eiríksson bæjarfulltrúi í Kópavogi og formaður endurskoðunarnefndar Jöfnunarsjóðs fór yfir starf endurskoðunarnefndarinnar og þær hugmyndir sem þar hafa verið til umræðu. Hlutverk nefndarinnar er að Skoða heildstætt reglur sjóðsins, fjalla um gæði núverandi jöfnunarkerfis og hvernig sjóðurinn þjóni best markmiðum sínum. Þá er nefndinni ætlað að taka mið af tillögum sem fram kunna að koma vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, breytinga á lögum um tekjustofna og hugsanlega sameiningu sveitarfélaga.
Í tengslum við ársþingið voru skipulagðar þrjár málstofur sem fjölluðu um samstarfsverkefni sveitarfélagana á Norðurlandi vestra á sviði atvinnu og byggðamála, menningarmála og auk þess var til umræðu möguleiki á víðtækari samvinnu sveitarfélagana á sviði Velferðarþjónustu. Þar gafst sveitarstjórnarmönnum kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri varðandi málaflokkana og hafa þannig með beinum hætti áhrif á stefnumörkun þeirra.
Þingið samþykkti tillögu frá stjórn og framkvæmdastjóra um að skipaður skuli starfshópur sem kanna á möguleika á auknu samstarfi og samþættingu sveitarfélagana og annara stofnana á sviði Velferðarþjónustu á Norðurlandi vestra.
Ný stjórn var kjörinn á þinginu; Úr stjórn gengu Gunnar Bragi Sveinsson og Héðinn Sigurðsson. Nýir stjórnarmenn eru Þórdís Friðbjörnsdóttir og Ágúst Þór Bragason. Þá var Elín R. Líndal kjörinn formaður og Þórdís Friðbjörnsdóttir varaformaður. Fyrir í stjórn eru Páll Dagbjartsson og Björn Magnússon.
Þingið samþykkti ályktun um byggðamál þar sem fram koma helstu áherslumál sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra. Ályktunina í heild má nálgast hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.