feykir.is
Skagafjörður, Aðsendar greinar
04.08.2019
kl. 10.17
Bakkabræður eru þjóðsagnapersónur, frægar fyrir atferli sitt og frábæra heimsku. Sveitfesti þeirra hefur verið nokkurt deilumál því ýmsir hafa viljað eigna sér Bakkabræður, Fljótamenn, Svarfdælingar og jafnvel Öxndælir. Elsta prentaða gerð sagnanna um Bakkabræður er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar sem prentaðar voru árin 1862 og 1864. Handrit þeirra sagna var skrifað af utansveitarmanni, Jóni Borgfirðingi, og lætur hann þá vera frá Bakka í Svarfaðardal. Guðbrandur Vigfússon las hinsvegar prófarkir af sögunum, sem voru prentaðar suður í Leipzig, og hann hefur bætt við neðanmáls: „Mun eiga að vera Bakki í Fljótum“ og vitnar í fyrsta árgang tímaritsins Ármann á Alþingi, prentaðan 1829, sem skrifaður var af Baldvin Einarssyni frá Hraunum í Fljótum. Baldvin segir þar um Sighvat sem er einn sögumanna ritsins: „Enginn getur sagt það um hann Sighvat að hann sé heimskingi og þó er sagt að hann sé ættaður úr Fljótum í Skagafirði sem ætíð hefur verið í munnmælum jafnað saman við Flóa að aulahætti eins og stefið sannar: Tvær eru sveitir, Flói og Fljót/sem flestir saman jafna.“ 1)
Meira