XD á kjördag

Nú í aðdraganda kosninga höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins verið á ferðinni og hitt kjósendur og heyrt hvað þeim býr í brjósti. Þannig viljum við vinna. Við viljum hlusta á hvað fólkið hefur að segja.

Okkur hefur verið bent á ýmsa hluti sem betur mega fara og margt af því kostar ekki mikið, það þarf einungis að taka ákvörðun um að hrinda því í framkvæmd, svo einfalt er það.

Ánægjulegt er að heyra að íbúum er umhugað um umhverfi sitt og vilja virkilega reyna að fegra og laga og óska eftir að átak verði gert t.d. á sorpurðunarsvæðum og á ýmsum stöðum, sem vissulega er brýnt verkefni.

Meðal stórra verkefna sem vinna þarf að á kjörtímabilinu eru breytingar á skólahúsnæði, framtíðarlausn á Sundlaug Sauðárkróks, háhraðatengingar, hitaveita, þriggja fasa rafmagn í sveitum, vegaframkvæmdir og fleira.

Sumt af því sem hér er talið upp er í höndum ríkisins, en sveitarfélög verða og eiga að þrýsta á og halda vöku sinni með að koma verkefnum áfram.

Þannig er það einnig með Heilbrigðisstofnunina. Við viljum tryggja íbúum góða heilbrigðisþjónustu og erum tilbúin að ganga alla leið í yfirtöku ef það er það sem þarf til að tryggja starfsemi stofnunarinnar.

Sjálfstæðismenn vilja árétta að þrátt fyrir bætta afkomu á síðasta ári, má hvergi slaka á. Aðhald og eftirlit í rekstri og efling atvinnulífs með fjölgun starfa er grundvöllur þess að hægt verði að bæta þjónustu við íbúana og jafnframt að ná fram lækkun á skuldum.

Á framboðslista okkar Sjálfstæðismanna er fólk sem hefur sýnt að það er kraftmikið og drífandi. Fólk sem kemur úr margvíslegum atvinnugreinum þar sem það hefur sýnt forystu og frumkvæði.

Okkur frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins hefur tekist að vinna vel saman í kosningabaráttunni og erum fullviss um að við getum unnið vel með öðrum í meirihluta í sveitarstjórn.

Við höfum gengið í hús og afhent íbúum stefnuskrá okkar. Stefnuskráin er raunhæf, Við höfum sýnt það og sannað síðustu 4 ár að við lofum ekki meiru en því sem við teljum okkur geta staðið við. Þess vegna komum við með ábyrga tillögu fyrir 4 árum um viðbyggingu Árskóla og það var sú leið sem farin var og sparaði sveitarfélaginu hundruði milljóna.

Við höfum mikla trú á fólkinu í Skagafirði og viljum stuðla að því að hver og einn fái að nýta styrkleika sína og blómstra. Til þess þurfum við að undirbúa jarðveginn, sá, hlúa að, vökva, bera á og stuðla þannig að stöðugum vexti og þroska allsstaðar í sveitarfélaginu.

Til að við fáum tækifæri til að takast á við verkefnin, þurfum við á ykkar stuðningi að halda. Við þökkum góðar móttökur og spjall nú í kosningabaráttunni.

Sigríður Svavarsdóttir
skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir