Vilt þú spillingu?
Kjóstu þá núverandi stjórnarflokka. En ef þú ert hugsi yfir ástandinu á Íslandi, ættir þú að staldra við og skoða aðra valmöguleika. Hafðu einnig í huga að:
- Ísland er spilltasta landið af Norðurlöndunum!
- Spilling á Íslandi eykst, samkvæmt Transparency International’s Corruption Perceptions Index.
- Núverandi stjórnarflokkar eru tengdari Panama skjölunum en nokkrir aðrir flokkar.
- Tenging Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við Panama skjölin er heimsþekkt.
- Innanríkisráðherra hefur ekki heldur hreinan skjöld hvað Panama skjölin varðar.
- Fyrrverandi seðlabankastjóri og fyrrverandi forsætisráðherra, vissu eða töldu sig vita að tugmilljarða lán Seðlabanka Íslands fengist ekki endurgreitt. Samt var lánað.
- Óvenju margir kaupendur ríkiseigna virðast tengjast fjölskyldu fjármálaráðherra
- Núna, síðustu dagana fyrir kosningar, keppast ráðherrar framsóknar við að koma sínu fólki í stöður í ríkisstofnunum, óháð getu þeirra eða hugsanlegrar hæfni til að sitja í viðkomandi stjórn.
- O.fl o.fl.
Dæmin um spillingu, svik og siðleysi eru ótrúlega mörg á Íslandi og þeim fer fjölgandi. Mörgum virðist sem siðleysi sé í lagi, svo lengi sem gerningurinn er löglegur.
Ég spyr; hvar er stoltið ykkar? Erum við sátt við svona framgöngu þess fólks sem telst vera í forystu þessa lands? Hvar eru mörkin okkar sem þjóðar? Er okkur ennþá alveg sama um allt? Skiljum við ekki ennþá að stjórnkerfi þessa lands er gegnsýrt af spillingu, hagsmunagæslu og pólitískri samtryggingu? Ætla Íslendingar að viðhalda þessu með áframhaldandi stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn?
Er ekki örugglega komið nóg!
Við verðum að hætta pólitískum ráðningum eða skipunum í stjórnunarstöður í stjórnkerfinu. Síðustu ríkisstjórnir voru með milli 70 og 80 opinberar ráðningar án auglýsinga. Hætta skipunum stjórnmálamanna sem eru að hætta í stjórnmálum í lykilstöður, t.d. sem sendiherrar, forstjórar stofnanna o.s.frv. Opna enn frekar fyrir aðgengi að upplýsingum um tengsl fyrirtækja, einstaklinga og stjórnmálaflokka. Efla viðurlög við hagsmunatengingum á þann hátt að það séu skýr viðurlög við því þegar menn í opinberu embætti, misnota stöðu sína í þágu annara.
Við eigum að leggja áherslu á og metnað í að byggja upp stjórnkerfi sem byggist á hæfni og getu fólks, en ekki pólitískum ferli þeirra.
Píratar vilja taka á spillingu. Þeir hafa ekki þá fjárhagslegu tengingu við efnafólk og atvinnulíf sem svo lengi hefur vafist fyrir núverandi stjórnarflokkum. Breytum Íslandi. Kjósum Pírata!
Þorgeir Pálsson
4. sæti á lista Pírata í Norðvestur kjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.