Við upphaf skal endinn skoða
Á 46. fundi Byggðaráðs Skagafjarðar var lagt fram uppfært samkomulag milli menningar- og viðskiptaráðuneytis og Skagafjarðar um byggingu menningarhúss í Skagafirði. Samkomulag þetta byggði á viljayfirlýsingu sem var undirrituð 5. maí 2018. Samkomulagið felur í sér að stofnframlagi verði varið til viðbyggingar og endurbóta á Safnahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki.
Í þarfagreiningu sem unnin var árið 2017 er miðað við 1.252 m2 nýbyggingu auk þess sem þarfagreiningin tekur til nauðsynlegra endurbóta á eldri byggingu. Miðað er við að heildarkostnaður við nýbyggingu og endurbætur núverandi húsa verði eigi hærri en 1.517 m.kr. og nemi 60 hundraðshlutar ríkissjóðs allt að 910 m.kr. Sveitarfélagið Skagafjörður leggur til 40 hundraðshluta og allan umfram kostnað sem til fellur. Við hjá Byggðalistanum teljum að 5 ára þarfagreining sé ekki marktæk og viljum sjá að unnin yrði ný greining og samhliða henni gerð áætlun um rekstrarkostnað mannvirkisins.
Jóhanna Ey, fulltrúi Byggðalistans í byggðarráði, lagði fram tillögu um að afgreiðslu á samkomulagi um menningarhús yrði frestað þar til rekstraráætlun lægi til grundvallar. Fulltrúar meirihlutans höfnuðu tillögunni á þeim grundvelli að ekki sé hægt að vinna fullmótaða rekstraráætlun fyrir þá starfsemi sem slíkt menningarhús muni hýsa. Við fulltrúar Byggðalistans undrum okkur á því að fulltrúar meirihlutans telji það ábyrga fjármálastjórnun að ákveða að fara í framkvæmd sem þessa þegar ekki liggur fyrir hvaða áhrif bygging og rekstur menningarhúss muni hafa á rekstur sveitarfélagsins.
Það getur verið áhættusamt að fara í endurbætur á gömlu húsnæði og nýbyggingu. Því er mikilvægt að gera raunhæft kostnaðarmat á endurbótum og gera ráð fyrir því versta, ljóst er að Safnahús Skagafjarðar er komið í verulega viðhaldsskuld. Það á við fleiri hús sveitarfélagsins. Gott dæmi um að kostnaður vegna endurbóta hafi farið langt fram úr áætlun er sundlaug Sauðárkróks. Í ljósi þess að við erum að tala um byggingu húss sem á að halda áfram að varðveita sögu og menningu okkar Skagfirðinga þá er gott að horfa til baka og læra af mistökum sem gerð hafa verið í rekstri sveitarfélagsins og annarra sveitarfélaga.
Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að nágrannasveitarfélög og íbúar þeirra hafi afnotarétt af menningarhúsunum eins og við verður komið, enda séu slík afnot í samræmi við almenna nýtingu húsanna. Þess má geta að nágrannasveitarfélagið Akureyri á og rekur menningarhúsið Hof og síðastliðið haust bárust fregnir af því að húsið væri fjárhagslegur baggi á sveitarfélaginu og erfitt að finna fjármagn til rekstur hússins svo að það komi ekki niður á fjármagni til núlifandi menningarlífs á Akureyri.
Það er vissulega þarft að bæta aðstöðu héraðsskjala- og minjasafns Skagafjarðar og teljum við hjá Byggðalistanum mikilvægt að undirbúningur sé unninn eins vel og kostur er, þörfin sé metin, kostnaðarmat og rekstraráætlun unnin. Þannig að kjörnir fulltrúar geti metið áhrif framkvæmdarinnar á rekstur sveitarfélagsins áður en ákvörðun sé tekin.
Við hjá Byggðalistanum erum fyrst og fremst að gagnrýna verklagið sem viðhaft hefur verið varðandi umrætt samkomulag og hefur okkur verið haldið fyrir utan það. Það er nauðsynlegt að kjörnir fulltrúar hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þeir telja sig þurfa til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun er varðar ráðstöfun á skatttekjum íbúa.
Fulltrúar Byggðalistans í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.