Vegið að grunninum
Í ræðu minni í dag (5. okt.) um fjárlagafrumvarp velferðastjórnarinnar fullyrti ég að nái framvarpið fram að ganga þá þýði það afturhvarf um tugi ára í þjónustu og velferð margra byggðalaga. Ég sagði einnig að frumvarpið væri samfélagslegt áfall fyrir landsbyggðina. Því miður held ég þarna sé vægt til orða tekið.
Mér er í raun algjörlega fyrirmunað að skilja hvað vakir fyrir þeim er mælir fyrir slíku plaggi því ekki virðist gerð ein einasta tilraun til að horfa á heildarmyndina. Heildarmyndin saman stendur af mörgum þáttum sem VERÐUR að taka inn í myndina. Þegar allt að 40 störf í heilbrigðisþjónustu, mörg hver sérhæfð, hverfa úr samfélaginu þá er veruleg hætta á að önnur störf fylgi með því flestir eru í sambúð og eiga börn. Það kann að þýða ef t.d. hjúkrunarfræðingur hverfur á braut þá gæti önnur sérhæfing farið með og börn úr skóla sem þýtt getur fækkun starfa í skólum og þjónustu. Þeir sem ekki geta flutt í burtu og fá ekki vinnu við annað lenda á bótum. Fasteignaverð lækkar, tekjur sveitarfélaga lækka, verslun og þjónustukaup minnka sem aftur leiðir til fækkunar starfa. Enn hef ég ekki rætt það óöryggi sem íbúum er boðið uppá og stór aukinn kostnað við sjúkraflutninga og það að sækja heilbrigðisþjónustu um langan veg. Afleiðingin af þessum skelfilegu áformum ríkisstjórnarinnar verður kjaftshögg fyrir þau byggðalög sem fyrir verða. Við þekkjum vel þá baráttu sem háð hefur verið undanfarin ár við að halda í þau fáu opinberu störf sem á landsbyggðinni eru. Þá er sorglegt að hafa hlustað á innantóm loforð Álfheiðar Ingadóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem lofaði samráði sem aldrei varð. Við getum ekki setið aðgerðalaus þegar vegið er að undirstöðum samfélaganna með jafn grímulausum hætti og nú er gert. Hættan er raunveruleg og því þarf samstöðu til að hrinda þessum áformum.
Gunnar Bragi Sveinsson
alþingismaður og íbúi á landsbyggðinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.