Úrslit í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga
Við setningu Sæluviku Skagfirðinga þann 28. apríl sl. voru að venju birt úrslit í vísnasamkeppninni, okkar árlega viðburði, vonandi verður keppnin haldin um ókomin ár. Markmiðið er að fá fólk til að botna fyrirfram gefna fyrriparta og einnig að yrkja vísu eða vísur um líflegt og litríkt forsetaframboð, hafa aldrei fyrr verið jafn margir til kallaðir á þeim vettvangi mun það verðugt rannsóknarefni. Þátttaka í keppninni var nokkuð góð, alls bárust okkur svör frá tíu hagyrðingum.
Sumir botnuðu alla fyrriparta ásamt því að senda inn eina eða fleiri vísur, einhverjir sendu aðeins eina stöku og allt þar á milli. Skáldagyðjan er ekki alltaf innan þjónustusvæðis. Höfundar fyrriparta voru þetta árið, Gunnar Rögnvaldsson Löngumýri, Ólafur Atli Sindrason Grófargili og Sigríður Garðarsdóttir Miðhúsum.
Margar góðar og skemmtilegar vísur komu upp úr umslögunum, að venju var allt vendilega dulkóðað. Var dómnefndinni, sem setin var þetta árið af Gunnari Rögnvaldssyni, Fríðu Eyjólfsdóttur og Sigríði Garðarsdóttur, nokkur þrautakóngur að velja það besta. Viðhorf og smekkur er með ýmsu móti. Niðurstaða fékkst á endanum, allir sammála eins og fara gerir hjá kviðdómi.
Úrskurður nefndarinnar var á þá leið að bestu framboðs-vísuna ætti „Móra“ en bak við það dulnefni stendur Ólöf Þóra Steinólfsdóttir í Reykjavík.
Baldur, Katrín, Halla Hrund,
hafa ásamt Jóni
aukið fylgið enn um stund
einmitt nú á Fróni.
Besti botninn fannst okkur hins vegar ortur af „Bítli“. Reyndist það dulnefni Jóns Gissurarsonar í Valadal, ekki alveg óþekktur hagyrðingur.
Stjórnvaldanna þrenning þrá,
þreyir ennþá völdin.
Hún með snilli knæf og kná
kemst á söguspjöldin.
Við í nefndinni viljum þakka til öllum er sendu inn botna og eða vísur, engin væri vísnakeppnin án ykkar. Sigurvegar-arnir munu innan tíðar fá sendar viðurkenningar frá Safnahúsinu. Frekari umfjöllun mun birtast í Feyki er fram líða stundir.
Sigríður Garðarsdóttir Miðhúsum,
umsjónarmaður Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.