Tjón af völdum dýrbíta
Hinn 15. desember 2003 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að fjalla um áhrif refs í íslenskri náttúru, gera tillögur um aðgerðir til að draga úr tjóni, fjalla um viðgang refastofnsins á vernduðum svæðum og áhrif hans á lífríkið þar. Nefndin fjallaði um tjón af völdum refa í landbúnaði, þ.e. lambadráp, bit á sauðfé og tjón í æðarvarpi. Skýrsla um áætlun refaveiða 2014–2016 er afrakstur þessarar vinnu og eru refaveiðar í dag framkvæmdar eftir tillögum nefndarinnar.
Margt málefnalegt er ritað í þessa skýrslu en annað kemur skringilega fyrir sjónir, miðað við framgang ríkis og sveitarfélaga, svo sem: „Grundvallarástæða þess að sérstakt fjármagn er lagt í refaveiðar er það tjón sem refir eru taldir valda. Til að nýta fjármagnið sem best verður því að vera hægt að meta tjón af þeirra völdum með hlutlægum hætti svo hægt sé að skipuleggja veiðar í samræmi við það.“
Refaveiðar í dag eru stundaðar samkvæmt kvóta sem sveitarfélagið leggur til, grenjaskyttur skulu veiða þennan kvóta og helst ekki fara yfir hann, enda er ekki til fjármagn hjá sveitarfélaginu til að veiða fleiri dýr. Þannig að refaskytta sem klárar sinn kvóta snemma á tímabilinu verður að vinna í sjálfboðavinnu það sem hægt er að veiða umfram kvóta, nema grenjaskytta á sama svæði hafi ekki náð að klára sinn kvóta , þá er afganginum dreift á veidd dýr umfram kvóta. Dæmi eru fyrir því að grenjaskyttur hafi verið fengið fyrirmæli frá sveitarstjórn um greiðslu fyrir veidd dýr umfram kvóta en þegar að skulddegi kom voru fjárráð lítil sem engin og einungis hluti dýranna fengust borguð, þetta á við mörg sveitarfélög víða um landið.
Umhverfisstofnun notar veiðitölur frá sveitarfélögum til viðmiðunar á stofnstærð refs, hvort sem er veitt samkvæmt kvóta eða ekki. Bak við veiðitölurnar liggja því litlar upplýsingar um eiginlega stofnstærð, einungis tölur um veidd dýr, dýr samkvæmt kvóta. Það er þekkt að veiðimenn hafa verið búnir með eða átt lítið eftir af kvóta í maí, jafnvel í apríllok, þá er grenjatíminn eftir, er hægt að meta stofnstærð út frá því? Það þarf ekki mikla þekkingu til að sjá að þessi viðmið ganga ekki upp, eiginleg stofnstærð næst aldrei metin.
Í téðri skýrslu stendur einnig: „Markmiðið er að almenn sátt sé um það, í fyrsta lagi hvað beri að skilgreina sem tjón af völdum refs og í öðru lagi hvernig beri að meta og eða mæla það tjón.“ Til að þetta nái fram að ganga verður að koma á samræmdri aðferðafræði. Til að byrja með verða því sveitarfélögin fengin til að skila inn upplýsingum um það tjón sem talið er að refir valdi á viðkomandi svæði og þau reyni jafnframt að meta tjónið fjárhagslega.“
Dýrbítur herjar á Viðvíkursveit
Nú er það svo að undanfarnar vikur hefur herjað dýrbítur á bændur í Viðvíkursveit, drepið nokkur lömb og aðkoman hefur verið ljót, við getum velt fyrir okkur hvernig þessi dýrbítur passar inní viðmið skýrslu höfunda. Á undanförnum árum nánar tiltekið frá árinu 2011 hafa refir drepið 23 haustlömb, frá Deildardal að og í Viðvíkursveit, í þremur tilvikum, versta dæmið voru sjö lömb á sjö dögum í káli. Þetta eru lömb sem fundust og vitað er um. Það hlýtur að vakna sú spurning hvort að þessi þróun hafi orðið vegna kvóta veiða og niðurskurðar frá ríki og sveitarfélögum.
Margar spurningar vakna og mig langar að setja nokkrar fram með mögulegu svari.
Hefði dýrbíturinn verið lifandi ef grenjaskyttan á því svæði sem refurinn kom frá hefði ekki verið búinn með kvótann um mitt sumar?
-Það er ekki öruggt hvaðan dýrið hefur komið eða hvort að þetta sé raunin, en spurningin á rétt á sér.
Hvert er eiginlegt tjón?
-Það er ekki vitað hvað mörg lömb eru dauð, nokkur lömb hafa fundist, haustlömb sem ætti að vera þægilegt að meta, þar er mælanlegt tjón. En eru einhver sem ekki hafa fundist?
Hver er kostnaður sveitarfélagsins við veiðar á þessu dýrum?
-Það eru 7.000 krónur á dýr, samkvæmt taxta fyrir vetrarveidd dýr. 7.000 krónur fyrir ekna kílómetra, yfirlegu tveggja manna í x klukkutíma. Búnað og tæki. Þrjúþúsund og fimmhundruð á mann með virðisauka.
Hvernig á að meta tjónið, hvernig á að leysa vandamálið?
Framtíðin er ekki björt!
Garðar Páll Jónsson, Melstað í Óslandshlíð
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.