Þessa dagana hugsa ég bara um tvennt. Körfubolta og riðu :: Áskorandinn Þórður Pálsson frá Sauðanesi
Hugur minn er hjá bændum í Miðfirði sem hafa fengið hinn skelfilega sjúkdóm riðu í sínar fjárhjarðir. Starfs míns vegna kem ég að þessum málum með beinum hætti og síðan ég byrjaði sem búfjáreftirlitsmaður hjá Matvælastofnun árið 2016 hef ég komið að 13 niðurskurðum.
Þegar ég skrifa þessi orð er verið að bíða eftir niðurstöðum þannig að kannski verð ég að undirbúa þann fjórtánda áður en þau birtast á prenti. Ég er miður mín yfir því að enn leynist þessi sjúkdómur í hjörðum hér á Norðurlandi vestra og stingi upp kollinum þegar og þar sem síst skyldi. Það skal þó tekið fram að við núverandi aðstæður ég sé ekki neina aðra leið til að halda riðunni í skefjum en að skera niður sýktar hjarðir. En það er von og vonin hún kom úr óvæntri átt. Karólína í Hvammshlíð sem ekki er dýralæknir eða menntuð í þeim geira vísinda sem venjulega stunda rannsóknir á sjúkdómum ákvað að hóa saman fólki og blása lífi í frekari rannsóknir á sjúkdómnum.
Verkefnið gengur út á að leita að verndandi arfgerðum þannig að nýta megi ræktunarstarfið til að halda sjúkdómnum í skefjum og vonandi útrýma honum að lokum. Rannsóknarhópurinn hefur nú þegar fundið verndandi arfgerð (ARR) sem áður var talið að ekki fyndist í sauðfé hér á landi og vísbendingar eru um að í fjárstofninum sé að finna fleiri arfgerðir sem hafa jákvæð áhrif. Ný vitneskja kallar á nýjar aðferðir við ræktun sauðfjár á Íslandi. Við þurfum að breiða hinni „nýju“ ARR arfgerð út í stofninum svo hratt sem verða má. Einnig þarf að auka hlutfall annarra arfgerða sem sýna aukið þol gagnvart riðu. Samhliða þurfum við að losa okkur við þau gen sem tengjast sérstökum veikleika fyrir riðu (áhættu arfgerðir) því það er nú orðið ljóst að fyrr náum við ekki að koma böndum á þennan sjúkdóm sem er í senn lúmskur og skæður.
Ég hvet alla bændur til að láta arfgerðargreina hjarðir sínar og lóga þeim kindum sem bera áhættu arfgerðir. Því miður koma þessi tækifæri of seint fyrir þá bændur sem nú þurfa að skera niður sitt fé en gefur um leið góða von um að þeir nái að byggja upp þolnari fjárstofn þegar þeir hefja sauðfjárrækt að nýju.
Hitt sem ég vildi ræða var körfubolti. Þegar ég gekk í Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki lærði ég að styðja lið Tindastóls í körfubolta. Fátt er skemmtilegra en að fara á leik og sleppa sér aðeins, rífast og skammast þegar illa gengur en hrópa og skemmta sér þegar vel gengur. Gaman er að sjá hvað samfélagið á Sauðárkróki tekur vel og innilega þátt í vegferð síns körfuboltaliðs, en einnig eru nágrannar að fylgjast með og styðja liðið áfram til sigurs. Ég bið því lið Tindastóls í körfubolta að vinna eins og einn Íslandsmeistaratitil til létta lund mína eftir allt þetta riðubras.
Ég skora á Hörð Ríkarðsson kennara að skrifa næsta pistil.
Áður birst í 15. tbl. Feykis 2023.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.