Skrapatunga á Laxárdal :: Torskilin bæjarnöfn
Ekki verður annað sjeð, en að Skrapa-tungunafnið komi fyrst upp eftir aldamótin 1400. Fram að þeim tíma hefir bærinn heitið Tunga. Annars skal geta þess að nálega allir Tungubæir hafa heitið aðeins Tunga í öndverðu, en forliður Tungunafnanna komið upp einhverntíma seinna.
- Skrapatunga er fyrst talin um árið 1318 (DI. II. 470) í Auðunarbók og auðvitað nefnd Tunga (í Höskuldsstaðamáldaga). Síðan hefir Kirkjumáldaginn verið endurritaður þessi ár: l360, 1394 og 1395 DI. III, l7l, 532 og 599 og ávalt er ritað: Tunga.
Árið 1449 er Skrapa-tunga komin til sögunnar (DI. V. 35 [Kúgildaskrá Hólastóls]), en þó bregður Tungunafninu einu fyrir til 1471. Úr því altaf Skrapa-. Árið 1472 sjest at vitnisburðum fjögra manna, að Skrapatungunafn er vel þekt um 1430 (DI. V. 613, 676-9). Mun því nærri sanni, að nafnið hafi myndast eftir 1400 eins og áður var sagt. Hvernig á Skrapa-nafninu stendur, er aftur á móti óvíst.
Gizka mætti á það, að einhver Tungubóndinn hefði verið auknefndur Skrapi. Merkingin hefði þá verið svipuð og í auknöfnunum skraf og skvaldri, sem bæði þekkjast: Halldór skvaldri og Halldór skraf (Ísl. þættir 40, bls. 189 og Sturl. IV. B. 96). En þetta er þó ólíklegt, því jörðin var stólseign. Sennilegra þykir mjer að í lok 14. aldar hafi verið sett þar almenn skilarjett fyrir næstu sveitir, því þar er allfjölsótt fjárrjett enn í dag. Við fjárrjettir forðum var oft svallsamt og ryskingakent. Getur vel verið að nokkuð hafi þótt hávaðasamt í Tungu, þegar rjettin var sett þar.
Er þetta nokkuð í samræmi við merkingu orðsins, t.d. finst lys.o. “skrapr“ (sterk mynd) í Snorra-Eddu, í merkingunni (hávaðasamur) blaðrari; sbr. varaskrap, orðaskrap og skrapalaupur (þ.e. málgefinn og ósannsögull). Loks má geta þess, að s. skrapa þýðir að skafa, klóra, sbr. skrapa e-ð saman, og er kynjuð frá engils. screpan = rífa, skafa, d. skrabe, n. skrapa = braka, marra, rótskylt sögninni skrópa (sjá nánar Torp, bls. 614-15).
Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar
Áður birst í 24. tbl. Feykis 2023
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.