Samstarf - tækifæri til sóknar - nýr listi til framfara fyrir íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Greinarhöfundar, sveitarstjórnarfulltrúarnir Sigurjón Þórðarson og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir höfum átt gott samstarf á því kjörtímabili sem senn er að ljúka. Við höfum veitt meirihluta Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingunni grænu framboði málefnalegt aðhald og lagt sameiginlega fram fjölda tillagna sem varða íbúana miklu og nú nýlega um að gerð verði könnun á þætti lágra launa á búsetuval, trygging hitaveituréttinda Skagafjarðarveitna, frelsi til grásleppuveiða og að undið verði ofan af biðlistum við leikskólann Birkilundar í Varmahlíð fyrir komandi haust.

Í framhaldi af góðu og skemmtilegu samstarfi höfum við ákveðið ásamt áhugasömum hópi fólks að bjóða fram sameiginlegan framfaralista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, laugardaginn 31. maí. Framboð sem mun beita sér fyrir og leggja áherslu á bætt og opnari vinnubrögð í nefndum, ráðum og í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þar sem hagur íbúa verði ávallt settur í öndvegi enda lítum við svo á að kjörnir fulltrúar vinni í umboði og fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Við hvetjum áhugasamt fólk að taka þátt í starfinu með okkur og láta að sér kveða.

Núverandi meirihluti

Síðastliðið ár og jafnvel lengur, hefur verið uppi sú pólitíska staða innan sveitarstjórnar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur einhverra hluta vegna stutt í einu og öllu meirihluta VG og Framsóknarflokks. Á hverjum sveitarstjórnarfundi á fætur öðrum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins reynt að gera málefnalega umræðu minnihlutans í sveitarstjórn, þ.e fulltrúa Samfylkingar og Frjálslyndra og óháðra, ótrúverðuga og tekið til harðari varna fyrir meirihluta VG og Framsóknarflokks.

Hin óþægilegu mál að mati Sjálfstæðisflokks og-meirihlutans

Hin óþægilegu mál sem reynt er að ýta út af borðinu eru m.a.umræða um

eignarhald á orkuauðlindum í Skagafirði og hitaveituréttindi, en við erum sannfærð um að það eru mál sem íbúarnir vilja að verði leyst með gegnsæjum og lýðræðislegum leikreglum. Sama á við um framtíð Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks sem heilbrigðisráðherra hefur haldið í algerri óvissu. Heilbrigðisráðherra hefur ekki farið leynt með þá ætlun sína að stofnunin verði hluti af sameiginlegri Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Ekki hafa enn hafist þær viðræður sem boðaðar voru um hugsanlega yfirtöku sveitafélagsins á rekstri stofnunarinnar. Ef ekki væri fyrir ítrekaðar fyrirspurnir okkar í byggðaráði þá væru málefni Heilbrigðisstofnunarinnar ekki til umræðu í sveitarstjórn. Til þess að knýja á um að farsæl lausn fáist á málinu, lögðum við fram tillögu á sveitarstjórnarfundi í síðustu viku sem fól í sér að kalla þingmenn kjördæmisins til samtals vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er og auka þrýsting á heilbrigðisráðherra.

Í stað þess að afgreiða tillöguna fagnandi var niðurstaða aukins meirihluta þ.e. fulltrúa VG, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að þæfa málið og draga það á langinn með því að vísa tillögunni til byggðaráðs. Eitt er víst að töfin hjálpar ekki Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks en mögulega þröngum flokkshagsmunum ríkisstjórnarflokkanna.

Staðan sem uppi er í Sveitarfélaginu hrópar á gerbreytt vinnubrögð innan sveitarstjórnar og til sóknar í öllum þeim málum sem skipta okkur íbúana máli og þó einkum málum sem varða búsetuval ungs fólks og fjölskyldna.

Með ósk um góðan og gleðilegan dag :)

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir