Réttsælis eða rangsælis | Leiðari 27. tölublaðs Feykis

Frá Siglufirði. MYND: ÓAB
Frá Siglufirði. MYND: ÓAB

Tröllaskagahringinn fór undirritaður sl. sunnudag í sumarveðri. Þrátt fyrir að þurfa að fara í gegnum fjögur göng þá er alla jafna gaman að fara þennan rúnt – ekki síst í góðu veðri. Það er margt að skoða og leiðin stútfull af bröttum fjöllum og grösugum dölum, söfnum og sjoppum. Á leiðinni er rennt í gegnum Hofsós, Sigló, Ólafsfjörð og Dalvík og hægt að teygja rúntinn með viðkomu á Hólum, í Glaumbæ, Varmahlíð, á Króknum og á Akureyri. Og svo ekki sé talað um að uppgötva útvegsbæina Árskógs-strönd, Hauganes, Hjalteyri og Dagverðareyri og hvað þeir nú heita allir þarna í Eyjafirðinum.

Persónulega þykir mér pínu skrítið að það sé ekki gert meira af því að kynna þennan skemmtilega hring fyrir ferðamönnum og markaðssetja hann. Kannski þarf að bíða eftir nýjum göngum úr Fljótum í Siglufjörð áður en það verður gert.

Það er staðreynd að það er viturlegra að fara Tröllaskagahringinn réttsælis. Hvað er réttsælis? spyr nú einhver. Það er sami snúningur og mínútuvísir á klukku. Rangsælis er því ef mínútuvísirinn gengi aftur á bak. Í mínu tilviki er því upphafsreitur Krókurinn, síðan Hofsós og áfram fyrir Tröllaskagann og Öxnadalsheiðina heim. Skiljú?

Síðan spyr einhver: Hvaða máli skiptir hvort maður fer leiðina réttsælis eða rangsælis. Svarið er að kannski skiptir það ekki beint máli.

En ef þú ert lofthræddur þá ertu jafnan fjær þverhnípinu niður í sjó, með tilheyrandi fiðrildum í maga og máttleysi í löppum, ef þú ferð réttsælis. Þverhnípin eru áður en þú ferð inn í Strákagöng og eftir að þú kemur út úr Ólafsfjarðar-göngunum.

Hin ástæðan er sú að þeir sem fara réttsælis þurfa ekki að bíða í útskotum í Strákagöngum og Ólafsjarðargöngum. Útskotin eru öll sömu megin í göngunum og þeir sem fara leiðina rangsælis verða að gjöra svo vel að víkja og bíða. Allir þurfa þó að sýna tillitssemi og hinkra eftir því að pínu ringlaðir erlendir ökumenn fatti að göngin eru ekki tvíbreið. Lífið er nefnilega alltaf betra ef við sínum hvort öðru tillitssemi.

Óli Arnar Brynjarsson, ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir