Refilsfréttir
Í upphafi árs 2015 er sjálfsagt að líta yfir farin veg í sambandi við reflinn og sjá hversu vel hefur gengið. Í lok árs er nánast búið að sauma 11m af reflinum. Það hafa gert 1.140 gestir og þeir hafa unnið í 1.854 klukkustundir og 30 mínútur. Sumir gestir koma auðvitað oftar en aðrir en í heildina stenst þetta væntingar. Það er mjög ánægjulegt hversu margir hafa áhuga á að setja spor sín í refilinn og um leið leyfa honum að mjakast áfram.
Í upphafi var tekin ákvörðun um að hann hefði sitt eigið líf þ.e. að framvindan stjórnaðist eftir áhuga gesta og höfum við haldið í þá ákvörðun. Stundum koma margir og stundum engir. Aðalatriðið er að njóta hans á meðan á þessu stigi stendur því eftir að hann er fullkláraður, verður hann lokaður á bak við gler og því ekki lengur aðgengilegur á svona nálægan hátt.
Í Textílsetrið eru komnir hinu árlegu nemar frá textílskólanum, Håndarbejdes Fremmes UCC í Kaupmannahöfn og vinna þær að reflinum. Þær eru fjórar í þetta sinnið og þrjár koma til viðbótar í júní. Þær sem eru núna eru byrjaðar að undirbúa þriðju teikningu refilisins en þar erum við komin á þann stað í sögunni sem Ingimundur gamli og fólk hans fer til Íslands. Hingað til höfum við bara verið í Noregi.
Á vorönninni verður opið á miðvikudögum, milli kl 13:00 og 17:00 og eru allir sem áhuga á, velkomnir. Að öðru leyti er opið eftir samkomulagi þar til sumaropnunin byrjar 17. júní nk.
Með ósk um að árið færi ykkur farsæld og frið,
Jóhanna E. Pálmadóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.