Pilsaþytur

Í Húsi frítímans á Sauðárkróki hittist hópur fólks á miðvikudagskvöldum frá kl. 19-22. Þessi kvöld eru nefnd prjónakvöld en auðvitað er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvað hann dundar við. Það munu að vísu vera eingöngu konur sem þarna mæta en þessi kvöld eru opin fyrir alla. Þarna hittist fólk með handavinnuna sína, miðlar fróðleik í þeim efnum og hefur það notalegt.  

Í ársbyrjun 2013 barst talið einhverju sinni að þjóðbúningum og þá kom í ljós að ansi margar konur í þessum hópi áttu annaðhvort upphlut eða peysuföt en voru misjafnlega duglegar að nota það. Í framhaldi af þessari umræðu var ákveðið að gera það að venju að mæta við setningu Sæluviku í þjóðbúning og fara svo í heimsókn á dvalarheimili aldraðra. Við setningu Sæluviku 2013 mættu hátt í 15 konur í búningum en einungis einn karlmaður mætti í hátíðarbúning. Þarna varð til mjög óformlegur félagsskapur sem kallar sig PILSAÞYT.

Markmið Pilsaþyts er að efla notkun á íslenskum þjóðbúningum. Í Sæluviku 2014 bættum við svo um betur og fengum þau Hildi og Ása hjá Annríki – þjóðbúningar og skart í Hafnarfirði til að koma norður og halda kynningu á íslenskum þjóðbúningum sem heppnaðist afskaplega vel. Auk þess mætti uppábúinn hópur á setningu Sæluviku og fór síðan í heimsókn á dvalarheimilið. Sá siður er því vonandi kominn til að vera. Þá höfum við hvatt fólk til að nota búningana sína við sem flest tækifæri t.d. 17. júní.

En íslenskir þjóðbúningar eru ekki bara upphlutur og peysuföt. Búningarnir eru margskonar og má þar einnig nefna faldbúning, skautbúning og kyrtil. Faldbúningurinn er þeirra elstur og var hann sparibúningur kvenna fyrr á öldum. Mikil aukning hefur verið í að konur komi sér upp faldbúning en það er heilmikið fyrirtæki fyrir önnum kafið fólk að fara suður yfir heiðar til að sækja námskeið svo nú stendur fyrir dyrum fyrsta námskeiðið hér í Skagafirði þar sem boðið verður uppá kennslu í gerð fald og skautbúninga.

Hildur og Ási hjá Annríki – þjóðbúningar og skart hafa verið óþreytandi að kynna íslenska þjóðbúninga og hafa farið víða um land með námskeið í gerð þeirra. Þau efna nú til kynningar og námskeiðs í gerð fald og skautbúninga í Varmahlíð helgina 21-23 nóvember nk. Föstudagskvöldið 21. nóvember frá kl. 20-22 verður kynning á þessum búningum í Varmahlíðarskóla og laugardaginn 22. nóvember kl. 10 hefst svo fyrsta námskeiðið í gerð þessara glæsilegu búninga og verður það haldið í Varmahlíðarskóla.

Kynningin á föstudagskvöldinu er ókeypis og ég hvet alla þá sem hafa áhuga á íslenskum þjóðbúningum að koma. Það er enn tekið við skráningum á námskeiðið svo ef einhverjir hafa áhuga er þeim bent á að hafa samband við Hildi hjá Annríki í síma 898-1573. Einnig má hafa samband við undirritaða ef frekari upplýsinga er þörf.

Ásta Ólöf Jónsdóttir Pilsaþytskona.

.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir