Opið bréf til fræðslunefndar, sveitarstjórnar og sveitarstjóra í Húnabyggð
Nú stöndum við íbúar í þéttbýli Húnabyggðar frammi fyrir því að keyra með yngstu börnin okkar á Vallaból sem er staðsett á Húnavöllum þar sem eingöngu er farið eftir kennitölum þegar kemur að því að taka börn inn í leikskólana eftir sameiningu sveitarfélaganna. Leikskólinn Barnabær sem er staðsettur á Blönduósi hefur verið yfirfullur og umræður um nýjan leikskóla staðið í mörg ár.
Með það í huga teljum við ekki tímabært að opna fyrir umsóknir allra í sveitarfélaginu og taka inn börn eingöngu út frá kennitölum. Einnig skal tekið fram að akstursstyrkur sem sveitarfélagið veitir miðast við næsta leikskóla frá lögheimili barnanna þrátt fyrir þvingunina sem er að eiga sér stað fyrir íbúa þéttbýlis í Húnabyggð og að inntökuskilyrði séu 12 mánaða.
Athuga skal einnig að umfangsmikillar breytingar sem þessar hafa afgerandi áhrif á íbúa þéttbýlis í Húnabyggð. Hér eru 2 dæmi reiknuð út frá nokkrum viðmiðum:
-Íbúar í þéttbýli Húnabyggðar þurfa að keyra um 20 km, 4x á dag = 80 km á dag. Ef við miðum við að akstur til og frá leikskóla sé 1 klst. á dag, 20 klst. í mánuði í 11 mánuði eru það 220 klst. á ári eða rúmir 9 sólarhringar á ári í keyrslu sem fjölskyldur í þéttbýli Húnabyggðar voru ekki búin að reikna með.
-Kostnaður vegna þessara 80 km á dag, 5x í viku miðast við 46 vikur og dísilolía kostar 319,2 og bíll sem eyðir 8. lítrum á hundraði gerir 469.862,4 kr. á ári sem fjölskyldur í þéttbýli Húnabyggðar voru ekki búin að reikna með.
Í kosningum um sameiningu sveitarfélaganna voru þessum steinum ekki velt upp og hafa þar af leiðandi aldrei verið ræddir nema á þessum eina fundi þegar þetta var samþykkt þann 18.8.2022. Teljast verður að ábótavant sé fyrir fræðslunefnd og sveitarstjórn að samþykkja slíkar reglur eins og var gert þegar ekki hefur verið rætt við íbúa sveitarfélagsins, hvað þá íbúa sem málefnið varðar um. Má það koma fram að slík framkvæmd verður að teljast úrelt fyrirbæri, að taka ákvarðanir um líf fólks án þess að ræða við það um málefni sem skipta þau máli og hafa áhrif á líf þeirra á umfangsmikinn hátt.
Eðlilegast þætti að ræða slík mál og hafa þau upp á borði en niðurstaða slíkra mála í öðrum sveitarfélögum í sameiningum hafa ekki gengið frá þessum málum á þann veg sem fræðslunefnd og sveitarstjórn Húnabyggðar ákvað að gera. Einnig verður að teljast óeðlilegt að sameining grunnskólana hafi tekið marga fundi hjá sveitarstjórn, fræðslunefnd og fl. Þar sem íbúar fengu að hafa rödd en leikskólamálin afgreidd með smá stiklu í fundargerð fræðslunefndar og sveitarstjórnar, án nánari kynningar um efnið og teljum við að margir átti sig ekki á stöðunni sem nú blasir við. Þar af leiðandi virðast sem íbúar í dreifbýli ekki átta sig á afleiðingum sem þetta hefur fyrir íbúa í þéttbýli miðað við þeirra rök um að sækja um leikskóla á Barnabæ.
Samkvæmt 26. gr. laga um leikskóla er kveðið um að sveitarstjórn sé heimilt að setja reglur um innritun í leikskóla sveitarfélagsins. Þessar reglur séu settar með tilliti til aðstæðna barna og foreldra með tilliti til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins. Þar með má setja reglur innan sveitarfélagsins um að börn í þéttbýli séu í forgangi í leikskóla þéttbýlis til dæmis. Þetta sýnir að ekki eingöngu kennitala á að taka með inn í reikninginn ef hagur barnanna og fjölskyldna í samfélaginu er fyrir hendi. Fræðslunefnd og sveitarstjórn, þá sérstaklega þeir sem samþykktu þessa tillögu, skulu kynna sér málefnið, ígrunda og tala við fólkið áður en þeir samþykkja eitthvað sem þau eru ekki einu sinni partur af. Skoða ætti hverja umsókn fyrir sig og meta en ekki ganga eingöngu út frá kennitölu ef hagur barnanna og fjölskyldna í samfélaginu er að leiðarljósi. Finna þarf lausnir fyrir þær aðstæður sem nú blasa við og eru algjörlega í óhag allra sem búa í þéttbýli á meðan þau sem búa í dreifbýli fá val.
Hafa verður í huga að fjölskyldur sem búa í þéttbýli hafa aldrei þurft að standa frammi fyrir slíku vali eins og íbúar í dreifbýli gerðu með því að flytja þangað. Að þvinga fólk sem hefur ekki annarra kosta völ en að setja börnin sín þar sem þau komast út frá kennitölu, sem verður Vallaból fyrir yngstu börnin, til að eiga bíl og keyra utanbæjar daglega 80 km er eitthvað sem þarf að endurskoða og verður það að teljast einstaklega óheilsueflandi fyrir samfélag sem er að koma á laggirnar að verða heilsueflandi samfélag. Fyrir þau sem búa í dreifbýli eru kröfurnar við að setja barnið sitt í leikskóla á Vallabóli oft litlar, mjög litlar eða engar breytingar, á meðan að fyrir íbúa í þéttbýli er þetta umturnun. Keyrsla og þá sérstaklega utanbæjar keyrsla er einnig ein þeirra athafna sem geta verið heilsueflandi og heilsuspillandi, fyrir suma er hún jafnvel slökun en fyrir aðra getur þetta verið gífurlegur streituvaldur.
Íbúar í þéttbýli völdu að búa á stað þar sem öll helsta þjónusta sem þarf er innanbæjar. Þar af leiðandi geta þessar breytingar sett aðstæður heimilanna algjörlega úr skorðum og var það gert án þeirra vitundar, án kynningar, án aðlögunar og án þess að þau hefðu rödd. Akstur með börn á þessum aldri getur reynst fólki gríðarlega erfiður, kvöld rútínur geta farið úr skorðum, tími til að sinna vinnu og fjölskyldu minnkar sem getur valdi miklum vanlíðan. Valið um þessa þætti er því tekið af íbúum þéttbýlis og hafa fjölskyldumeðlimir á öllum aldri aldrei þurft að keyra slíka vegalengdir. Mismununin sem þessi vegna eingöngu kennitölu fyrir börn sem hafa náð 12 mánaða aldri þarf að ígrunda betur.
Keðjuverkunin af því að útiloka yngstu börnin sem hafa náð 12 mánaða aldri í þéttbýli frá þeirra næsta skóla mun vera viðvarandi. Þetta verður að teljast einstaklega fráhrindandi fyrir fólk á barneignaraldri að flytja hingað og er ekkert annað sveitarfélag sem við fundum með fyrirkomulag sem þetta. Um er að ræða utanbæjarakstur upp á 80 km. ekki lengri innanbæjarakstur eins og tíðkast annars staðar. Ekki hefur verið gefið út hvort leikskólar opni og loki fyrr eða seinna en það leiðir einnig til auka kostnaðar sem ekki var inn í reikningum áður. Jafnframt verður að taka inn í þessa mynd að skólaakstur fyrir börn á þessum aldri er ekki mögulegur.
Keðjuverkun sem þessi mun einnig hafa áhrif á atvinnulíf í samfélaginu. Þegar allra veðra er von geta foreldrar í dreifbýli setið fastir heima með börnin vegna færðar á dreifbýli meðan íbúar þéttbýlis sitja fastir heima með börnin sín þar sem ófært er á Vallaból. Við sem foreldrar viljum leggja okkar af mörkum í atvinnumálum, félagasamtökum og öðru slíku sem í boði er í samfélaginu en peningaskortur, tekjutap og tímatap mun breyta miklu í ákvörðunartöku þeirra sem eiga ung börn og þeirra sem ætla sér að eignast þau í framtíðinni hérna í Húnabyggð.
Ef greinin hér að neðan er skoðuð sést að ekki er skylda að sameina leikskóla þó svo að sveitarfélag sé sameinað. Unnið náið með foreldrum, starfsmönnum og skýrsla kynnt fyrir fólki sveitarfélagsins. Þetta eru allavega vinnubrögð sem við hefðum vilja sjá fyrir bæði grunnskólana og leikskólana í sveitarfélaginu. <Lokaskýrsla Þingeyjarsveit (thingeyjarsveit.is)>
Hafa skal í huga að þessi málefni sem fram hafa komið eru eingöngu þeir steinar sem við höfum velt, þar af leiðandi eru sennilega aðrir í samfélaginu með önnur og fleiri sjónarhorn á málið sem eiga rétt á sér. Upplýsingar sem málið varðar eru oft misvísandi, við sem foreldrar vitum varla hvar við stöndum eða hvort fjölskyldur í barneignum skiptum yfir höfuð máli fyrir samfélagið. Við viljum í það minnsta búa í samfélagi þar sem fólk lætur málefni sig varða þó þau eigi ekki við um þau sjálf og setji sig í spor þeirra sem málefnin ná yfir. Einnig myndum við vilja að upplýsingaflæði varðandi þessi mál og önnur væru betri þar sem við höfum heyrt misjafnar sögur frá mörgum aðilum um þetta mál og engar upplýsingar að finna á netinu.
Á að loka Vallabóli? Hvenær lokar honum? Er bráðabirgðalausn á leikskólaplássi hérna í vinnslu þar til nýr leikskóli verður byggður? Verður akstursstyrkur fyrir foreldra sem kjósa að senda barn sitt á Blönduós fremur en Húnavelli þó að Húnavellir sé nær leikskólinn? Verður akstursstyrkur fyrir foreldra á biðlista á leikskólanum á Blönduósi sem nýta sér Vallaból? Mun það hafa áhrif hvenær barn verður tekið inn ef það samþykkir inntöku á Vallaból? Skiptir umsóknarfrestur engu máli þegar raðað er á biðlista er einungis farið eftir kennitölum? Hver eru ykkar rök varðandi þessar ákvarðanatöku og hvernig var farið að henni? er hluti af þeim spurningum sem hafa vaknað hjá okkur þegar við höfum verið að skoða þetta mál.
Með von um svör, lausnir og að einstaklingar innan fræðslunefndar og sveitarstjórnar ígrundi starfsemi sína á þeim vettvangi um málefni sem hafa gífurleg áhrif á líf fólk.
Arnór Guðjónsson og Marta Karen Vilbergsdóttir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.