Litið um öxl

Nú er fjögurra ára kjörtímabil að renna sitt skeið og þar með seta mín í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Það er með trega sem ég kveð þennan starfsvettvang því kynni mín af samstarfsfólki jafnt í sveitarstjórn og í almennum störfum hjá sveitarfélaginu hafa verið afar ánægjuleg og gefandi.

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum haft það að leiðarljósi í okkar störfum að pólitískar línur eiga ekki að ráða við ákvarðanatökur, heldur hagsmunir sveitarfélagsins og þar með íbúanna í okkar samfélagi. Í sveitarstjórnarpólitík á enginn flokkur einkarétt á hugtökum svo sem jafnrétti eða samvinna, heldur þarf sveitarstjórn að starfa sem liðsheild og sjá til þess að allar góðar hugmyndir hljóti brautargengi. Ég tel að sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafi undantekningarlítið starfað eftir þeim markmiðum á þessu kjörtímabili og það ber að þakka.

Við sjálfstæðismenn í Skagafirði lögðum í upphafi kjörtímabilsins ríka áherslu á að ná fram hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins. Það var ekki vandalaust að snúa ofan af afleiðingum góðæris og allsnægta án sársaukalfullra aðgerða. Allir sveitarstjórnarfulltrúar lögðust á árar ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins til þess að spyrna við fótum í útgjöldum sveitarsjóðs. Árangurinn er sem betur fer að skila sér í jákvæðum viðsnúningi í rekstri sveitarfélagsins og það ber öllum að þakka. Ég nefndi að enginn ætti einkarétt á hugtökum, en í störfum  okkar sjálfstæðismanna og allir ættu að temja sér sem vinna að almannahag, er nauðsynlegt að hafa réttlæti og sanngirni að leiðarljósi.

Á þann hátt höfum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins verið öflugir talsmenn þess að jafnræði ríkti varðandi leigu og afnot af húseignum og landareignum sveitarfélagsins. Í þessu skyni var farið í að skilgreina hvaða íbúðarhúsnæði var í útleigu vegna félagslegra aðstæðna og hins vegar í almennri útleigu. Leigukjör á almennu húsnæði voru leiðrétt og aðlöguð að hinum opna leigumarkaði og með því móti var stigið skref í að samræma leigumarkað í sveitarfélaginu. Þá höfum við einnig hvatt til þess að hraða vinnu við að kortleggja landareignir sveitarfélagsins og endurnýja og samræma leigusamninga um ræktað og óræktað land sem nytjað er af öðrum en sveitarfélaginu. Það er nauðsynlegt að allt sé uppi á borðum í þeim efnum og jafnræðis sé gætt meðal þeirra sem gerast leigutakar á jarðnæði hjá sveitarfélaginu.

Í störfum í veitustjórn og siðar veitunefnd hefur að hálfu okkar sjalfstæðismanna verið unnið skipulaga með starfsmönnum Skagafjarðarveitna að uppbyggingu öflugra veitukerfis til hagsbóta fyrir notendur og til uppbyggingar veitnanna sem þjónustufyrirtækis í eigu íbúa sveitarfélagsins. Þetta fyrirtæki okkar hefur notið þess frá upphafi að hafa framsýna stjórnendur og öfluga starfsmenn sem hafa byggt upp framsækið þjónustufyrirtæki. Við sjálfstæðsmenn höfum unnið að því innan veitunefndar að ákvarðanir um stækkun dreifikerfis verði ávallt teknar á grundvelli hagkvæmisjónarmiða en ekki hentistefnu. Í því skyni hefur farið fram kostnaðarmat á flestum þeim kostum sem bjóðast í hitavatnstengingum í sveitarfélaginu. Á grundvelli þessarar vinnu hefur næstu framkvæmdum Skagafjarðarveitna verið skipað niður í forgangsröð, þar sem þegar á næsta ári verður ráðist í hitaveituframkvæmdir í Fljótum.

Málefni grunnskólanna hafa verið áberandi á yfirstandandi kjörtímabili og þá ekki hvað síst framkvæmdir við stækkun Árskóla. Ég var þess trausts aðnjótandi að vera skipaður í byggingarnefnd skólans og kom því að þeim framkvæmdum á byrjunarstigi. Ég er þakklátur samnefndarmönnum mínum fyrir jákvæðni í garð þeirra tillagna sem ég setti fram varðandi lausnir til stækkunar skólarýmis. Með því að bæta við hæðum á eldri byggingar sparast umtalsverðir fjármunir ásamt því að landrými til íþróttamannvirkja helst óbreytt. Mikilvægast er þó að nemendur og starfsmenn skólans hafa lýst ánægju sinni með þessa útfærslu á stækkun skólans. Við höfum nú aðeins lokið við framkvæmdir á fyrsta áfanga stækkunar Árskóla og er því verk að vinna fyrir nýja sveitarstjórn á komandi árum.

Stærstu verkefni nýrrar sveitarstjórnar verða þó að líkindum atvinnumálin. Fjölgun starfa er eitt af brýnustu verkefnum á næstu árum til þess að auka hagsæld og gera góða þjónustu enn betri fyrir íbúa sveitarfélagsins. Efling atvinnulífs er þó ekki einkaverkefni sveitarstjórnar, heldur ber sveitarstjórn að skapa hér umhverfi og hagkvæmar aðstæður til að laða að fjárfestingar og framkvæmdir. Sveitarstjórn þarf að vera leiðandi afl og sjá um kynningar á möguleikum héraðsins og jafnframt að vera tengiliður við stjórnvöld landsins fyrir þá aðila sem á þurfa að halda.

Verkefni nýrrar sveitarstjórnar eru ótalmörg og hafa frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins sett þau fram í stefnuskrá sinni fyrir komandi kosningar. Þar ber margs að geta svo sem varðandi íþrótta- og æskulýðsmál, aðgengi og önnur málefni fatlaðra, framtíðaskipan heilbrigðis- og öldrunarþjónustu og málefni grunn- og leikskólanna sem eru og verða mikilvægasti málaflokkur sveitarfélagsins.

Þeir frambjóðendur sem skipa lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar hafa breiða reynslu og þekkingu á öllum þeim sviðum sem verða á verkefnalista næstu sveitarstjórnar. Því hvet ég kjósendur til að veita þeim gott brautargengi á kjördag. Jafnframt vil ég þakka þann stuðning, ábendingar og góð ráð sem ég hef notið í störfum mínum á vettvangi sveitarstjórnar á þessu kjörtímabili. Að lokum vil ég óska öllu því ágæta fólki sem mun ná kjöri í næstu sveitarstjórn velfarnaðar í sínum störfum.

Jón Magnússon, sveitarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.      

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir