Komum okkur á kortið!

SSNV atvinnuþróun hefur meðal annars það hlutverk að hjálpa fyrirtækjum, einstaklingum í rekstri, stofnunum og sveitarfélögum á starfssvæðinu að hjálpa sér sjálf. Eitt af þeim verkefnum sem atvinnuráðgjafar SSNV hafa verið að sýsla með undanfarið er að skoða  skráningar fyrirtækja og rekstraraðila í gagnagrunna Google Maps. (maps.google.com ).

Stöðugt vaxandi útbreiðsla landakorta­þjónustu Google í gegnum hvers kyns nettengd tæki með staðsetningarbúnaði, svo sem snjallsíma og spjaldtölvur, gerir það að verkum að rétt skráning í Google gagnagrunnanna verður æ mikilvægari. Þeir sem eitthvað eiga undir því að viðskiptavinir geti auðveldlega ratað til þeirra ættu að huga vel að því hvernig þeirra fyrirtæki birtist notendum Google Maps kortanna.

Hér á svæðinu er úrbóta þörf í þessu efni, þar sem upplýsingarnar sem Google hefur tínt saman úr ýmsum áttum til notkunar í kortakerfinu eru stundum úreltar. Sem betur fer er fremur auðvelt að koma réttum upplýsingum til skila. Google hefur opnað fyrir fulla þjónustu við Íslendinga á þessu sviði og er Street-view ferð þeirra um landið fyrr í haust ein birtingamynd þess. Hér má geta þess til gamans að Markaðsstofa Norðurlands ásamt fleirum hafa komið því til leiðar að unnt er að leita og skrá upplýsingar eftir landshlutum á Íslandi; þannig er Norðurland vestra nokkurn veginn rétt afmarkað á Google Maps.

Aðallega eru tvær leiðir til þess að koma skráningum á heimskort Google: annars vegar mapmaker.google.com fyrir alla sem vilja skrá nánast hvað sem er á kortið. Hins vegar places.google.com fyrir aðila sem vilja skrá fyrirtæki sitt og þjónustu beint og „eignast“ um leið skráninguna.

Algengt er að ferðaþjónustufyrirtæki birtist á Google kortinu í gegnum þriðja aðila, til dæmis bókunarvélar eða þess háttar. Slík fyrirtæki ættu engu að síður að stofna sína eigin skráningu hjá Google Maps og nýta sér þá ókeypis kynningarmöguleika sem því fylgja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir