Kápa Íslands :: Áskorandapenninn Ragnheiður Sjöfn Jóhannsdóttir Hvammstanga
Það er fallegt að horfa út á Miðfjörðinn á svona degi, sólin að kíkja fyrir hornið og loforð um fallegt gluggaveður í dag. Maður drekkur í sig orkuna, sest svo niður til að rita smá pistil í Feyki.
Fyrir eins og 50 árum var ég alveg með á hreinu hvernig ég vildi hafa lífið fram undan. Ég ætlaði að mennta mig, finna mér svo mann og eiga slatta af börnum. Allt mjög hefðbundið.
Ég spjalla gjarnan við unga fólkið okkar í dag og spyr þá þessarar spurningar. Hvað langar þig að gera í lífinu? Þau segja gjarnan að þau vilji mennta sig mikið, ferðast mikið um heiminn, búa erlendis og kynnast mannlífi og siðum annarra þjóða.
Þegar ég hef tök á, spjalla ég einnig við ferðamenn og þá koma upp sömu hugmyndir, ferðast mikið og læra af öðrum þjóðum. Fólk er gjarnan að bæta við sig þekkingu á ákveðnum sviðum eða bara að skoða heiminn.
Þá spyr ég. Hvað erum við að bjóða þessum forvitnu ferðamönnum? Við viljum helst selja þeim þjónustu, gott og blessað. Þeir kaupa námskeið, ferðir og alls konar skipulögð ævintýri.
En við þurfum einnig að benda þeim á staði, eða gönguleiðir sem þeir gætu nýtt sér. Nú er ég að koma að því sem ég tel mikilvægt. Við þurfum að kenna þeim að umgangast landið.
Þegar ég var í leiðsöguskólanum 2010 var einn samnemandi minn (mikill áhugamaður um „ágang ferðamanna“) með hóp erlendra ferðamanna. Hann bað bílstjórann að stoppa á næsta útskoti á Keflavíkurveginum. Þar bað hann farþegana að koma aðeins með sér út fyrir veginn. Hann beygði sig niður og lyfti örlítilli mosató, varla lófastórri, og sagði: „Þetta er kápa Íslands. Það tók landið mitt nokkur hundruð ár að búa hana til. Mig langar að biðja ykkur að hjálpa mér að verja hana.“
Ekki fleira að sinni!
Ég skora á Valgerði Kristjánsdóttur, bónda á Mýrum 3, að skrifa pistil í Feyki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.