Kaldar kveðjur
Heldur finnast mér kaldar kveðjurnar sem felast í því fjárlagafrumvarpi sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi. Vitað var að grípa þyrfti til mikils sparnaðar við gerð fjárlaga 2011. Trúlega óraði þó fáa fyrir því að helst skyldi skorið niður í kvennastörfum á landsbyggðinni og þá mest á svæðum sem glímt hafa við neikvæðan hagvöxt og fólksfækkun um árabil.
Þau áform sem uppi eru um niðurskurð koma sérlega hart niður á Norðurlandi vestra. Ekki hafa allar stofnanir úrfært endanlega hver áhrifin verða en útlit er fyrir að fækka þurfi um 60 – 70 stöðugildi á Norðurlandi vestra á næsta ári. Já, árinu á 2011 sem rennur upp eftir 80 daga!
Alvarlegust er sú stefna sem birtist í niðurskurði á heilbrigðisstofnununum á Blönduósi og Sauðárkróki, þar eru í húfi 45 – 55 stöðugildi. Flestum ætti að vera ljóst að það eru einkum konur sem gegna þessum störfum.
Vart þarf að fjölyrða um neikvæð áhrif þessarra uppsagna á heilbrigðisþjónustu á svæðinu, lífsgæði og öryggi íbúa og gesta, menntunarstig og félagsauð í samfélaginu.
Þessi niðurskurður er sérlega einkennilegur þegar litið er til eftirfarandi þátta:
- Ríkisstjórn Íslands hefur gefið út að frá og með fjárlögunum 2011 eigi að taka upp kynjaða hagstjórn. Á mannamáli skilst mér að það þýði að leggja skuli sérstaka áherslu á að gæta jafnréttis kynjanna við úthlutun fjármuna.
- Ekki hafa verið sett fram gögn þar sem sýnt er fram á hvað muni sparast við þessar aðgerðir eða hvert, nákvæmlega, kostnaðurinn mun flytjast. Augljóslega mun þó þessi niðurskurður leiða af sér kostnaðarauka fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Ríkið þarf að greiða fyrir aukna sjúkraflutninga, vistun fólks í dýrari rýmum á sérhæfðari sjúkrahúsum og svo má væntanlega reikna með því að greiða þurfi atvinnuleysisbætur til þeirra sem missa störf og ganga ekki svo greiðlega að annarri vinnu á svæðinu. Hvergi hef ég séð niðurstöður um raunverulegan sparnað þegar tillit hefur verið tekið til allra þátta.
- Afleidd áhrif verða mikil og jafnvel ófyrirsjáanleg. Vegna niðurskurðarins hefur gripið um sig ótti og óöryggi meðal íbúa. Eðlilega heldur fólk að sér höndum með kaup á vörum og þjónustu og líða þær greinar fyrir það. Það ástand mun versna ef og þegar niðurskurðurinn kemur til framkvæmda. Þannig mun þjónusta og vöruframboð dragast saman og rýra enn búsetuskilyrði og atvinnumöguleika. Tekjur sveitarfélaganna á svæðinu munu væntanlega dragast verulega saman á sama tíma og meiri þörf verður fyrir einstaklingsmiðaða þjónustu þeirra.
- Ekki hefur verið staðið við fyrirheit um að enduskoða reiknilíkan sem verið hefur grundvöllur að skiptingu fjármuna til heilbrigðisstofnana. Því var þó heitið í fyrra þegar niðurskurðarhnífurinn risti dýrpra hér á Norðurlandi vestra en víðast annars staðar.
- Verið er að ráðast að grunnþjónustu og velferð íbúa. Allir gera sér grein fyrir nauðsyn þess að spara. Ég er þess fullviss að íbúar, sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra og forsvarsmenn stofnana væru örugglega til í að taka þátt í þeirri vinnu að forgangsraða svo vinna megi að sparnaði með sem sársaukaminnstum hætti fyrir íbúa. Til að sýna viljann í verki skal ég hér í fljótu bragði nefna örfáa liði sem skoða mætti sérstaklega með sparnað í huga:
- Ráðgefandi stjórnlagaþing, sleppa
- Feneyjatvíæringurinn, sleppa
- Bókamessan í Frankfurt, sleppa
- Óbyggðanefnd, gera hlé á málarekstri og leggja nefndina niður (e.t.v. tímabundið).
- Fækkun/niðurskurður listamannalauna
Þetta eru auðvitað bara nokkrir liðir, sem ég tel að við gætum sparað, svona að minnsta kosti tímabundið.
Rannsóknir hafa sýnt að konur ráða fremur búsetuvali fjölskyldunnar en karlar og oftar eru börn búsett með mæðrum en feðrum. Kynjaslagsíða meðal íbúa, þ.e. þegar konur eru lægra hlutfall en karlar af íbúafjölda þykir vera eitt einkenni hnignandi samfélaga. Þegar gengið var til sveitarstjórnakosninga síðast liðið vor, voru færri konur en karlar á kjörskrá í öllum sjö sveitarfélögunum á Norðurlandi vestra.
Samkvæmt heimildum frá Vinnumálastofnun voru atvinnulausir á Norðurlandi vestra að meðaltali 125 talsins, síðustu 12 mánuði, þar af 70 konur.
Færri störf og fábreyttari atvinnutækifæri kvenna eru svo sannarlega ekki leiðin til að rétta stöðu byggðanna á svæðinu.
Afleiðingar af atvinnumissi kvenna, líkt og boðað er til með fjárlagafrumvarpinu, munu verða miklar og áhrifin neikvæð á byggðir sem þegar standa höllum fæti.
Ef þessar ísköldu kveðjur til kvenna á landsbyggðinni eru afleiðing af kynjaðri hagstjórn þætti mér vænt um að fá ,,gömlu aðferðina” aftur.
Ég trúi því að fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir eigi eftir að taka verulegum breytingum. Þetta hlýtur bara að vera misskilningur. Það hefur gleymst að skoða áhrif á Norðurland vestra, áhrif á lífsgæði íbúa, áhrif á jafnrétti og atvinnumöguleika kvenna og síðast en ekki síst hvort um raunverulegan sparnað er að ræða.
Ég treysti því að þessi misskilningur verði leiðréttur og fjárlagafrumvarpið verði einfaldlega lagfært áður en að gildistöku þess kemur.
Katrín María Andrésdóttir
Sauðárkróki
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.