Jákvæðni til sátta - neikvæðni til ósátta

Sigurður Páll Jónsson
Sigurður Páll Jónsson

Núverandi fiskveiðistjórnunar kerfi var komið á 1983 og tók gildi 1984 eða fyrir rúmum þrjátíu árum. Um tíu árum síðar  var þorskur kvótasettur á smábáta og seinna ýsa, steinbítur og fleiri tegundir. Neikvæð umræða í þjóðfélaginu um kvótakerfið og það að kvótinn sé að færast á fáar hendur kemur illa við litlar, meðalstórar og oftast skuldsettar útgerðir í landinu.

Ein megin ástæða þess að útgerðir eru að færast á fáar hendur eru að mínu mati þessi neikvæða umræða. Menn selja þeim stóru og hugsa sér að komast frá þessu áður en kerfið verður tekið af, þeir stóru vita að áfram verður veiddur og verkaður fiskur. Þeir hafa tækin, tólin og þekkinguna.

Ef aflaheimildir verða boðnar upp af ríkinu, eins og mikið er rætt um nú um stundir (færeyska leiðin), mun stórútgerðin bjóða hæst, það segir sig sjálft. Þegar auðlindagjaldið var sett á í tíð síðustu ríkisstjórnar kom það harðast niður á litlum og meðalstórum útgerðum og stefndu margar þeirra í gjaldþrot vegna þess. Stórútgerðin hafði bolmagn í þessar aðgerðir þó vissulega tæki það á.

Það er mín skoðun að kvótakerfið hafi reynst vel, bæði stórum og smáum útgerðum og eins þjóðarbúinu í heild. Við sem eldri erum munum eftir endalausum gengisfellingum á krónunni til að styrkja útflutning á fiski þegar ríkið var með útgerðina í fanginu, og almenningur borgaði brúsann, viljum við það aftur.? Kvótakerfið er ekki gallalaust og þarf sífellt endurskoðunar við, en sjálfbærni þess er ótvíræð.

Ef útgerðir gætu séð inní framtíðina í stað endalausrar óvissu vegna ofangreindrar neikvæðrar umræðu og gert áætlanir um fyrirtæki sín yrði reksturinn mun heilbrigðari vegna minni óvissu. Nýliðun yrði þá álitlegur kostur fyrir unga útgerðamenn og konur að sjálfsögðu.

Strandveiðar smábáta hafa gengið vel og er almenn sátt um kerfið, því þarf að hlúa að því með góðu sambandi við greinina.

Sjálfbærar fiskveiðar okkar Íslendinga þar sem Hafrannsóknarstofnun gefur út stofnstærðarmat sitt á veiðistofnum eftir undanfarnar rannsóknir og síðan veiðiráðgjöf til stjórnvalda, sem eftir hefur verið farið í meginatriðum er heilbrigðisvottorð um þá umgengni  við fiskveiðar á Íslands miðum, sem umheimurinn sættir sig við.

Sigurður Páll Jónsson, Stykkishólmi

Þriðji maður á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 7.október 2016.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir