Já, en hvers vegna í dauðanum?
Mótmæli landsbyggðarfólks gegn áformum stjórnvalda um niðurskurð í heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni eru einhver hin öflugustu sem við munum eftir. Í rauninni hefur sprottið upp hreyfing fólks út um allt land , sem lætur ekki bjóða sér það sem borið er á borð í fjárlagafrumvarpinu. Þetta eru þess vegna ekki hefðbundin mótmæli, heldur miklu fremur einhvers konar vakning, þar sem nánast hver sem vettlingi getur valdið snýst til varnar í þágu nauðsynlegrar grunnþjónustu í samfélaginu. Fólk áttar sig á því að sú stefnumótun sem við sjáum í fjárlagafrumvarpinu veikir innviði byggðanna; innviðina sem forsendur búsetunnar eru meðal annars reistar á. Þess vegna skynja íbúarnir þessa baráttu sem átök um sjálfan grundvöllinn og þar með um leið möguleika byggða sinna.
Óréttlætið birtist síðan í hugmyndum sem fela í sér allt að 40% niðurskurð á landsbyggðinni þegar almenna hagræðingarkrafan í velferðarmálum er 5%. Þetta eru ástæður þess mikla alvöruþunga sem við sjáum svo skýrt í varnarbaráttunni sem nú er háð um framtíð heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni. Þau stjórnvöld sem ekki gera sér grein fyrir þessari alvöru eiga eftir að komast að því fullkeyptu.
Hverjir tapa?
Það þarf ekkert um að deila, að áform stjórnvalda skerða heilbrigðisþjónustu sem íbúar landsbyggðarinnar hafa búið við. Það er því augljóst að það er ekki í þágu þess fólks að þessi áform eru sett fram. Það er sömuleiðis ljóst mál að sveitarfélögin á þessum svæðum bíða af mikinn skaða. Með minnkandi útsvarstekjum, fólksfækkun og skertum umsvifum. Með verri þjónustu flyst fólk burtu. Ungt fólk forðast staði þar sem heilbrigðisþjónustan er lakari. Smám saman molna undirstöðurnar, af því að búsetan verður ekki eftirsóknarverð.
En í þágu hvers er þetta þá gert? Svarið hefur hingað til verið að þetta sé gert í hagræðingarskyni, til þess að lækka kostnað. Sem sagt í þágu skattborgaranna. En er það svo? Nei. Nú hafa nefnilega verið lögð fram gögn sem sýna að svo er ekki. Meira að segja ríkið sjálft, skattborgararnir tapa á þessu háttalagi. Og úr því að svo er, þá hljótum við að spyrja: Hvers vegna í dauðanum er þetta þá allt saman gert?
Skattborgararnir tapa einnig
Skýrsla Dóru Hlínar Gísladóttur verkfræðings á Ísafirði og Kristins Hermannssonar hagfræðings og doktorsnema við Strathclyde háskóla í Skotlandi um efnahags- og samfélagsleg áhrif niðurkurðarins á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, hafa fært okkur heim sanninn um þetta. Skýrsla þeirra sýnir okkur að jafnvel Stóri Bróðir sjálfur,ríkið, tapar á öllu saman. Þetta er tímamótaskýrsla sem ástæða er til þess að hvetja fólk til að kynna sér. Skýrsluna má lesa hér: http://isafjordur.is/upload/files/almennt/ahrif_nidurskurdar_a_heilbrigdisstofnun_vestfjarda.pdf
Að sönnu tekur hún eingöngu til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. En hún talar sínu máli og niðurstöðu hennar væri fróðlegt að skoða í samhengi við stöðuna á öðrum sambærilegum stofnunum. Hún kennir okkur líka að nauðsynlegt er að skoða málin í stærra samhengi en oft er gert.
Og núna þegar við sjáum að niðurskurðarhugmyndirnar þjóna varla nokkrum tilgangi, þá er bara það eitt eftir að hvetja stjórnvöld til þess að draga þær til baka. Við vitum líka hvort sem er að þær njóta ekki stuðnings á Alþingi og það er jú þar sem þessi mál verða endanlega leidd til lykta. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Það er best að hætta strax við þessi áform.
Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.