Já ég þori get og vil!
Það er ánægjulegt að sjá hve margir vilja leggja málstað Vinstri grænna lið í komandi kosningum. Mest um vert er að okkur takist að koma frá þeim stjórnmálaöflum sem hafa haft sérhagsmunagæslu og dekur við auðvaldið að leiðarljósi frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðis og Framsóknarflokks komst til valda. Verkefnin framundan eru fjölmörg og við verðum að snúa við þeirri óheillaþróun sem blasir við í neikvæðri byggðaþróun og stórauknum ójöfnuði í landinu.
Stöðva verður aðförina að mennta og heilbrigðiskerfinu og að kjörum aldraðra og öryrkja og tryggja fjármuni í samgöngumál þar sem algjört metnaðarleysi í ríkir. Unga fólkið berst í bökkum við að koma sér upp heimili þar sem stuðningur við barnafjölskyldur hefur verið skertur mikið og barnabætur og vaxtabætur lækkaðar og lítill skilningur er á kjörum efnaminna ungs fólks sem er að brjótast áfram í námi og framfleyta fjölskyldu og reka heimili.
Ég býð mig fram í forvali Vinstri grænna til að leiða áfram lista VG í Norðvesturkjördæmi.
Á þeim sjö árum sem ég hef setið á Alþingi hafa verið miklir umbrotatímar í lífi þjóðarinnar
og að sama skapi lærdómsríkir. Sú reynsla hefur nýst mér vel og mun ég nota hana áfram á uppbyggilegan hátt í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi fyrir alla.
Ég er landsbyggðar- og alþýðukona frá Suðureyri við Súgandafjörð og hef búið þar áfram eftir að ég varð þingmaður. Ég er sprottin úr jarðvegi verkalýðs- og hagsmunabaráttu landsbyggðarinnar til sjávar og sveita og bakgrunnur minn úr verkalýðs- og sveitarstjórnarmálum hefur nýst mér vel í störfum mínum sem þingmaður.
Ég hef og mun alltaf taka slaginn fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu og barátta mín á þingi hefur snúist um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, innviðauppbyggingu á landsbyggðinni, öflugri landbúnaði, jafnrétti til náms, náttúruvernd og endurreisn heilbrigðis- og velferðarkerfisins, þar sem hagsmunir aldraðra, öryrkja og unga fólksins eru tryggðir. Það er gott að hafa góðar hugsjónir en það er líka mikilvægt að fylgja þeim eftir og tala fyrir þeim við hvert tækifæri. Ég vil fylgja eftir og framkvæma breytingar á íslensku þjóðfélagi þar sem jöfnuður er lykilatriði, allir hafi sömu tækifæri og samfélagsábyrgð ríkir en sérhagsmunagæslu og spillingu verði hafnað. Ég er klár í slaginn fyrir Vinstri græn í þessa baráttu og leita eftir stuðningi kjósenda til þess að leiða áfram lista VG í NV- kjördæmi í komandi alþingiskosningum. Ég hvet fólk til að kynna sér mál sem ég hef flutt á þessu kjörtímabili og skoða má á vef Alþingis og nefni ég hér nokkrar þingsályktunartillögur. Háhraðatengingar í dreifbýli, lögbinding lágmarkslauna, mótun stefnu um flokkun, vernd og skráningu ræktunarlands, eflingu brothættra byggða og byggðafesta aflaheimilda, mótun stefnu um framkvæmdaáætlun um ferðamannaleiðir á Vestfjörðum, átaksverkefni í eftirliti með fylgni við vinnu og skattalöggjöf en sú tillaga gengur út á að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði. Samþykkt var í vor þingmálið „Áhættumat í ferðamennsku“ sem ég er fyrsti flutningsmaður að en ég fékk þingmenn úr öllum flokkum til liðs við málið, enda þjóðþrifamál.
Gott fólk, tökum saman höndum og gerum veg Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi sem mestan í komandi kosningum og göngum af krafti og með bjartsýni að leiðarljósi til kosninga í haust.“
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.