Hver er maðurinn og hvað hefur hann sagt? | Kristófer Már Maronsson skrifar

Kristófer Már Maronsson.
Kristófer Már Maronsson.

Það var stórkostleg stemning í Laugardalnum í dag þar sem stelpurnar okkar sýndu okkur framúrskarandi fótbolta og sigruðu Þýskaland 3-0 til að tryggja sér sæti á EM í Sviss á næsta ári. Það sem gerði leikinn enn betri var stórbrotinn stuðningur þúsunda stelpna af Símamótinu sem létu vel í sér heyra á vellinum og ætla sér væntanlega margar að komast í landsliðið seinna á ferlinum. Eftir leik sá ég að síminn hafði verið í yfirvinnu við að taka á móti símtölum og skilaboðum og ég hitti nokkra Skagfirðinga sem stöppuðu í mig stálinu. Það hafði birst grein á Feyki kl. 16 sem ég hafði ekki séð, ber hún nafnið „Af tveimur skáldum”. Hana má finna í fyrstu athugasemd.

Í greininni er „einhver Kristófer“ sakaður um ýmislegt sem á ekki við nein rök að styðjast. Ég get ekki annað en tekið til varnar fyrir þennan mann.

Fyrir það fyrsta vita allir sem þekkja þennan Kristófer að hann neitar aldrei að koma í mat, enda þykir honum matur ákaflega góður og borðar annaðhvort helst til of mikið af honum þessa dagana eða þá að skyrturnar hafi óvart ratað í þurrkarann nýlega. Ég hef þó gerst sekur einstaka sinnum um að læsa mig inni á sólríkum júlídögum, enda með frjókornaofnæmi á lokastigi og hef margt fyrir stafni.

Greinarhöfundur kannast ekki við að hafa heyrt til eða hitt þennan Kristófer í umræðu um menntamál eða á opnum viðburðum um menntamál í Skagafirði. Ég minnist þess svo sem ekki heldur að hafa hitt greinarhöfund á útskrift 10. bekkjar Árskóla í vor, þar sem ég var staddur og fylgdist með hæfileikaríkum krökkum sýna listir sínar og kveðja grunnskóla með bros á vör, en líklega vott af söknuði. Ég stóð reyndar ekkert upp á stól og kallaði yfir salinn hver ég er en ég kannski geri það næst svo allir viti hver ég er.

Ég er víst þessi Kristófer. Fyrir þau sem þekkja mig ekki er ég þriggja barna faðir, fluttist í Skagafjörðinn 2022 og hef sinnt ýmsum störfum, þar á meðal í stjórnmálum en eins og frægt er orðið er ég formaður fræðslunefndar í sveitarfélaginu og hef verið í tæpa sex mánuði. Það er mikill heiður að fá að vinna fyrir samfélagið sitt og hef ég lagt mig fram í að gera það af alúð og í samstarfi við hagaðila.

Sett er fram sú samlíking að ég hafi talað um skólasamfélagið okkar eins og ég væri að segja að „Grettislaug væri að öllum líkindum skítköld og full af saurgerlum“. Ég veit ekki hvaðan greinahöfundur fær fréttirnar en ég get ekki orða bundist þegar svona vitleysu er haldið fram.

Á miðvikudag birti ég langan pistil hér þar sem ég fór yfir hvað við höfum gert undanfarna sex mánuði í fræðslunefnd. Við höfum unnið frábæra vinnu í samstarfi við foreldra barna og starfsfólk leikskólanna okkar við að meta hvort tækifæri séu til þess að bæta þar starfsaðstæður og auka vellíðan starfsfólks og barna. Við höfum lagt fram tillögur sem ég hef trú á því að verði til bóta í okkar samfélagi. Þá áttum við gott samstarf við foreldra leikskólabarna og skólastjórnendur í Varmahlíð við að bregðast við biðlista í leikskólunum þar. Áhugasamir geta lesið pistilinn á facebook síðu minni.

Ég fór einnig aðeins inn á þau verkefni sem bíða okkar í haust, þar á meðal undirbúningsvinnu sem fræðslunefnd samþykkti samhljóða að ráðast í áður en við búum til nýja menntastefnu fyrir okkar góða samfélag. Þetta vakti athygli og birtist meðal annars viðtal við mig á mbl.is, þar sem margt kom fram en eitthvað hefur greinilega misskilist þó að mér þyki rangtúlkanirnar ganga full langt.

Ég hef hvergi talað niður skólasamfélagið í Skagafirði. Ég hef lítið annað gert en að tala Skagafjörð upp og það geta vinir mínir að sunnan, sem eru fjölmargir, líklega vottað fyrir. Sumir eru að verða ansi þreyttir á því að heyra hvað Skagafjörður sé framúrskarandi og ég á ekki von á því að þurfa að hætta þegar við höfum kortlagt okkar stöðu. Í pistli mínum á miðvikudag sagði ég: „Við í Skagafirði getum verið vongóð um að staða okkar sé yfir pari, en við eigum ekki að sætta okkur við neitt annað en að vera framúrskarandi”. Í morgun deildi ég téðri frétt af mbl.is og sagði: „Við munum ekki sitja hjá og vona að staðan okkar sé góð þó tilefni sé til bjartsýni”. Í bókun fræðslunefndar sem ég skrifaði segir einnig: „Ljóst er að nemendur í Skagafirði standa ágætlega í einhverjum þáttum ef miðað er við fyrirliggjandi samanburðarmælingar.” Það vita það flestir sem hafa verið í menntakerfinu að ágætiseinkunn er sú besta sem hægt er að fá, þýðir að nemandi er framúrskarandi, og það er með þeirri meiningu sem bókunin er skrifuð.

Ég hef fulla trú á því að við stöndum vel. Skagafjörður hefur verið í fararbroddi í ýmsum menntatengdum málum og er það vel. Við erum að fara í það verkefni að endurskoða menntastefnu. Okkar sýn í pólitíkinni er að í þeirri stefnu verði skýr, metnaðarfull og mælanleg markmið. Til þess að vita hvert þú ert að fara þarftu fyrst að vita hvar þú ert. Því teljum við mikilvægt að kortleggja stöðuna í Skagafirði og ég trúi ekki öðru en að skólasamfélagið taki vel í það verkefni til að sýna fram á þann árangur sem náðst hefur í Skagafirði og er umtalaður í skólasamfélaginu. Ég hef einnig þá trú að í Skagafirði vilji allir hlutaðeigandi að við séum framúrskarandi og við höfum alla burði til þess.

Varðandi skýrslu um stöðu drengja í menntakerfinu þá stend ég við þau orð að hún hringi öllum viðvörunarbjöllum. Ég kann að skilja að einhver hafi misskilið það sem svo að ég ætti kannski við Skagafjörð, en ég á við samfélagið okkar í heild - enda hefur árangur Íslands í samanburðarmælingum hrapað. Ég var spurður sérstaklega hvort við ætluðum að skoða verkefnið Kveikjum neistann sem fólk hefur misjafnar skoðanir á. Ég svaraði því að við ætluðum að skoða þau verkefni sem eru nefnd í skýrslunni sem mögulegar lausnir. Þetta samþykkti fræðslunefnd samhljóða, sem og að við myndum opna samtalið strax í haust um aukna hreyfingu í skólunum okkar.

Ég reyni að fullyrða ekki nema ég hafi gögn til að rökstyðja mínar fullyrðingar. Þegar ég hef ekki gögn þá spyr ég spurninga, til þess að finna gögn. Bestu liðsfélagar sem ég hef átt í gegnum tíðina spyrja spurninga, oft erfiðra, og hvetja mann til að gera enn betur þó maður standi sig vel nú þegar. Ég er svo heppinn að hafa átt marga góða liðsfélaga sem ég hef lært mikið af. Ég lít á mig sem liðsfélaga skólasamfélagsins, ekki bara í Skagafirði heldur á landsvísu. Ég ætla ekki að biðja neinn afsökunar á því að brenna fyrir því að Skagafjörður skari fram úr, né að monta mig af því. Ég ætla hins vegar að biðja foreldra, nemendur, kennara og aðra hagaðila um að taka þátt í því með okkur að gera enn betur.

Ég hef fengið mörg falleg skilaboð í kvöld sem staðfesta að ekki tókst öllum að misskilja orð mín líkt og greinarhöfundi. Ég er þakklátur fyrir það og yrði ykkur sem lesið langlokurnar mínar einnig þakklátur fyrir að dreifa þessari, svo þennan misskilning megi leiðrétta. Á morgun er dagur tvö í símamótinu og ég hlakka til að mæta og hvetja áfram okkar flottu fulltrúa. Áfram Tindastóll!

Kristófer Már Maronsson
Höfundur er formaður fræðslunefndar í Skagafirði
- - - - - -
Skrifað að kvöldi 12. júlí 2024

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir