Hvað var ég aftur að kvarta um daginn?

Ríííínnnnng!
„Já, halló!“
„Góðan daginn, þetta er hjá kjararáði. Ég þarf því miður að tilkynna yður að við hækkuðum laun yðar upp í rúma milljón.“

„Rúma milljón? Nú það er ánægjulegt að heyra. Ég hef oft velt því fyrir mér hví einhver er tilbúinn að fara á þing fyrir minna. En ég spái reyndar ekkert í það mín vegna. En ég þakka þér bara kærlega fyrir! Heyrðu annars, hvernig heldurðu að almenningur taki þessu?“

„Þeir eru ekki glaðir, finnst eins og þeir séu snuðaðir á sínum kjörum.“

„Getiði ekki græjað það í kjararáðinu?“

„Nei, það er ykkar hlutverk.“

„Andskotinn! Þarna eruð þið búnir að setja mig í erfiða stöðu en ég sé til hvað ég get gert.“

„Ókey bæ.“

 

„......“

„Villtu kauphækkun?

„Ha, ég?“

„Já, þú, herra forseti.“

„Nei, ertu brjálaður, það lítur svo illa út fyrir mig.“

„Hvað viltu þá að ég geri við peningana?“

„Þarf ég að svara því núna?“

„Nei, nei. En gerðu mér þann greiða að taka við þeim svo ég líti ekki illa út. Það er ekkert grín að vera í þessu kjararáði. Við reynum okkar besta við að hækka laun hérna á Íslandi en fáum ekkert nema skít og skömm fyrir. Meira að segja þingmenn eru drullustressaðir að taka við þessari leiðréttingu. Feisbúkkið glóir hjá þeim og það er ekki skemmtilegt fyrir þá að eiga vini sem hrauna yfir þá útaf því að þeir eru að fá laun sem hæfir þeirra starfi.“

„Já, það er satt. Hvað getum við gert svo almenningur fari ekki alveg yfir um?“

„Þegjum í viku og þá er þetta gleymt.“

„Ókey, líst vel a það.“

„Ókey, bæ!“

  

Bjarni, sæll. Þetta er hjá kjararáði. Það er komið upp svolítið vandamál. Þannig er mál með vexti að við hækkuðum laun þingmanna til móts við aðra embættismenn ríkisins.“

„Já, það var nú kominn tími til. Það hefur dregist að lagfæra launin hjá þeim.“

„Já, og svo hækkuðum við launin hjá forsetanum þó nokkuð.“

„Já, það er fínt. Hann þarf að vera á góðum launum. Það skilja það allir.“

„Já en svo ... þú mátt ekki vera reiður, við hækkuðum líka laun ráðherra.“

„Hvað ertu að segja. Núna? Hvað eruð þið að hugsa? Veistu ekki að ég er í miðju samtali við aðra foringja við að mynda ríkisstjórn? Djöfullinn, þið eruð búnir að klúðra þessu? Bað ég um þessa hækkun ? Nei!, Ég gerði það ekki! Nú verður almenningur alveg snar.“

„Ég biðst innilega afsökunar. Hvað getum við gert?“

„Ég verð líklega að segjast vera í samningaviðræðum við Framsókn, þá gleymist hitt.“

„Gengur það upp?“

„Já, pottþétt. Sjáumst.“

„Ókey, bæ..“

 

Kjararáð er sjálfstætt ráð sem er falið það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins. Í þeim hópi eru alþingismenn, ráðherrar, dómarar, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands, prestar, prófastar, saksóknarar, sendiherrar og forstöðumenn ríkisstofnana. Kjararáð ákveður einnig launakjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu þeirra. 

Páll Friðriksson

Leiðari 42. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir