Hugleiðingar um riðu
Það skeður á þessu hausti að riða kemur upp á tveimur bæjum hér í sveit og það þarf að skera allt féð niður. Menn hafa glímt við það að komast að einhverri niðurstöðu sem er sú að skera bara allt niður á þeim bæjum sem hún kemur upp á. Hver er árangurinn eftir öll þessi ár sem liðin eru frá því að riðan fór að koma upp eftir fjárskipti. Mér er sagt að það sé allt á fullu í þeim efnum, ég sé hann ekki, það virðist allt vera eins og það var fyrir 50-60 árum. Það er slæmt í allri þeirri tækni og vísindum sem til eru í dag. Bændum er bara sagt að slátra, það á að vera lausnin. Þetta er ekki sársaukalaust. Það er mikil vinna að sótthreinsa og hreinsa öll hús og umhverfi og er ekki bjóðandi bændum. Og sjá engan árangur í þessum málum. Það er útlit fyrir að þetta geti gengið frá sauðfjárbúskap dauðum, haldi þetta svona áfram.
Bændum virðist ekki vera gefinn kostur á að athuga hvort hægt sé að leita að orsakavaldinum. Til dæmis að fara í gegnum bókhaldið og athuga undan hvaða hrútum eða ám þær kindur eru sem bændur missa. Séu þessar ær undan vissum hrút verður að lóga öllu undan honum og honum líka. Eins er það með ærnar.
Ég hef grun um það að sé vírusinn ekki í kindinni þegar hún er keypt og hún er af ósýktu svæði þá er hún berskjölduð fyrir riðunni. Vestfirska féð virðist vera viðkvæmara fyrir þessu þegar það kemur í þetta umhverfi. Það verður að finna orsökina hjá viðkomandi bónda áður en allt er skorið niður. Það er of seint að leita orsakanna þegar allt er brennt og grafið eins og gert er nú.
Fjárskil fóru fram í Skagafirði haustið 1949. Þá fékk faðir minn úthlutað 32 lömbum og ég fékk af því fjégur lömb. Ég var þá 14 ára og fékk það embætti að hirða þau og gefa þeim öllum nafn um veturinn. Þegar þessar kindur voru 5-6 vetra, að mig minnir, þá sé ég að ein kindin mín er veik. Ég fer til föður míns og læt hann vita. Hann lítur á hana og segir að það sé riðan og það verði að lóga henni daginn eftir og grafa hana og ég megi ekki setja hana í lömbin. Það var gjört! Svo leið fram á veturinn, þá veikjast fleiri. Ég man ekki hvað margar, mig minnir að færust 4-5. Þá fór ég í bókhaldið og kom þá í ljós að þær voru allar út af sama hrútnum. Ég sagði föður mínum það að allar ærnar sem höfðu veikst væru útaf sama hrútnum. Þá segir hann að næsta haust yrði að slátra honum og öllu því sem alið hafi verið undan honum og var það gjört. Riða kom aldrei upp í mínum fjárstofni.
Ég seldi Jaðar árið 1997 og keyptu þau Róbert Haraldsson og Erla Valgarðsdóttir féð og veit ég ekki til þess að þar hafi komið upp riða síðan. Það geta verið fleiri orsakir sem valda því að kind fær riðu. Jarðorkan er í beltum yfir landið og ef hún liggur í gegnum fjárhúsin þá liggur féð í þessu og þá getur orsakast riða. Sumir bændur hafa fengið sé stöð, eftir að niðurskurður hefur farið fram, til að losna við jarðorku úr húsum og híbýlum sínum. Þar á meðal ég sjálfur úr mínu húsi.
Ástúni 30. 10. 2016.
Páll Jónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.