Hugleiðingar eins íbúa í Skagafirði
Okkur er byggja og búa á Hellulandi og tengdum húsum er orðið það ljóst að pólitískur stuðningur við ákveðinn stjórnmálaflokk virðist ráða því hvort heitt vatn er lagt til okkar eður ei.
Það var árla árs 2012 að tveir ágætismenn, verkstjóri hjá Skagafjarðarveitum og tæknifræðingur frá Stoð, komu að máli við mig og tjáðu að nú stæði til að leggja heitt vatn í Hegranesið sumarið 2013 og voru að kanna hvort við ábúendur á Hellulandi ætluðum ekki að vera með. Að sjálfsögðu taldi ég svo vera þar sem húshitunarkostnaður við núverandi aðstæður væri óbærilegur hvort sem hitað væri með olíu eða rafmagni. Á Hellulands jörðinni yrðu a.m.k. sex tengingar við íbúðarhúsnæði og einnig eru tvö svínabú er þyrftu heitt vatn sömuleiðis. Svo tekjur af tengingu yrði ærin og notkun eftir því.
Það var svo í september mánuði sama ár (2012) sem sömu menn komu nú frekar fámálir og tjáðu mér að ekki yrði lagt vatn að Hellulandi eða tengdum húsum í þessari aðgerð, þar sem ljóst væri að ekki væri um nægt vatn að ræða eða nægann hita og báru við að stofnlögn að Marbæli hefði ekki næga flutningsgetu. Hvergi var á það minnst þá að vatnið yrði nýtt á öðrum stað. Við þetta kvaðst ég verða að una á þessum tímapunkti og gerði engar stórkostlegar athugasemdir nema tjáði viðkomandi að árskostnaður hjá mér við húshitun væri í kringum 1,5 millj. á ári í olíukostnað. Heildar húshitunarkostnaður íbúa er búa á Hellulandi er því um 3 – 3,5 milljónir króna á ári hverju og er þá ekki talið sumarhús hjá Þorvaldi Steingrímssyni.
Síðar meir kom í ljós að það var talið betur heppnað að sinna diggu stuðningsfólki Framsóknarflokksins og sveitarstjórnar í Viðvíkursveit heldur en að klára að leggja í Hegranesið. Fara ætti með vatnið austur yfir Héraðsvötn og leggja að nokkrum heimilum í Viðvíkursveit.
Það er í rauninni engum sem um þetta frétta og fjalla skiljanleg þessi ákvörðun né sú mismunun er hér er gerð á íbúum sveitarinnar. Hefur verið haft á orði að ákveðnir aðilar hliðhollir núverandi sveitarstjórn hafi látið ansi ófriðlega á kynningarfundi um hitaveituframkvæmdirnar og krafist þess að lagt yrði í þann hluta Viðvíkursveitar er nú er verið að leggja og hafi haft vinninginn. En það eru að vísu munnmæli af áðurnefndum fundi. Í þeim hluta Viðvíkurhrepps er nú er unnið að heitavatnslögn eru álíka margir kaupendur af vatni og í landi Hellulands.
Nú hefur veitustjórn á síðasta fundi sínum upplýst 5 ára áætlun heitavatnsvæðingar í Skagafirði og hvergi er það að líta lagningu á heitu vatni að Hellulandi. Má þar bera keim af kosningaloforðum Framsóknarflokksins og núverandi meirihluta í sveitarstjórn. Lítur þetta út sem gulrót til kjósenda á þeim svæðum er fyrirhugað er að heitavatnsvæða. Það er því ljóst að við er búum á Hellulandi erum ekki jafn mikilvægir íbúar sveitarfélagsins og aðrir. Ég hef sagt það áður og vill fullyrða að pólitík ræður hér för. Einungis þeir sem eru tilbúnir að bugta sig og beygja fyrir Framsóknarpólitíkinni virðast fá að bergja af gæðum þeim er öllum skyldi ætlað.
Það er einnig skondið nú í aðdraganda kosninga að ekkert framboð til sveitarstjórnar hefur þessi mál á sinni stefnuskrá og hef ég að undanförnu hvatt alla vini mína, og þá er ég næ til, að kjósa eitthvað annað en Framsóknarflokkinn þar sem það kannski vekur fylgjendur hins siðblinda flokks til umhugsunar eða aðgerða fólkinu í sveitarfélaginu til hagsbóta.
Höfum við ábúendur á Hellulands landi leitað fyrir okkur með lögfræðilegt álit á því hvort ekki megi stefna sveitarfélaginu fyrir mismunun og brot á ákveðnum mannréttindum sem öðrum íbúum er boðið.
Virðingarfyllst.
Ólafur Jónsson
Ábúandi á Hellulandi 1
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.