Heilbrigðisstofnanir og sameining sveitarfélaga
Umræða um viðamiklar sameiningar ríkisstofnana og sveitarfélaga á Íslandi er nú fyrirferðarmikil og ber sannarlega að líta á sem jákvæðan fylgifisk hrunsins. Hlutur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í efnahagshruninu er hinsvegar ekki í kastljósi. Verðlagning á byggingarétti og samkeppni þeirra í lóðabraski þarfnast hins vegar skoðunar. Sameiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hljóta, meðal annars vegna þessa, að koma til álita.
Um hríð hefur óvissa ríkt um sameiningu heilbrigðisstofnananna á Blönduósi og Sauðárkróki. Skipulag þessarar mikilvægu grunnþjónustu á Norðurlandi vestra til framtíðar er nú á borðum enn eins ráðherrans. Endurskipulagningar hefur lengi verið þörf, sérstaklega á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Stoðir stofnunarinnar á Sauðárkróki hafa löngum verið styrkari og löng seta framsóknarmanna á stóli heilbrigðisráðherra á síðari árum hefur ekki spillt fyrir.
Ytra byrði stofnunarinnar á Blönduósi hefur nú sumarið 2010 verið endurbætt að frumkvæði ríkisvaldsins undir stjórn Fasteigna ríkissjóðs og er þakkarvert. Ráðsmennsku og stjórnskipulag stofnunarinnar er hins vegar brýn þörf á að bæta. Starfsánægja innan Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi er ein sú lakasta allra ríkisstofnana á Íslandi samkvæmt nýlegri landskönnun.
Auk styrkari stjórnunar og skilvirkari gæðaþróunar eru stærri og burðugri stofnanir taldar njóta samlegðaráhrifa, veita þannig betri og fjölbreyttari þjónustu sem jafnvel leiðir til sparnaðar. Auðveldara er fyrir stjórnendur að takast á við viðvarandi mönnunarvanda í sumum starfsstéttum og fjarvistir starfsfólks auk þess sem hætta á faglegri einangrun minnkar.
Augljóslega ætti ný sameinuð heilbrigðisstofnun á Norðurlandi vestra að hafa upptökusvæði sem er í samræmi við útlínur sveitarfélagsins sem það á að þjóna. Þetta á ekki hvað síst við þegar haft er í huga að umfangsmiklir verkefnatilflutningar frá ríki til sveitarfélaga, m.a. í málefnum aldraðra, fatlaðra og heilbrigðisþjónustu eru í undirbúningi eða þegar hafnir. Tilfærsla Heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga undir Heilbrigðisumdæmi Vesturlands og nýja stofnun með aðsetur á Akranesi 2008 var gerð í skjóli myrkurs og þvert á öll rök. Það er formsatriði fyrir nýjan heilbrigðisráðherra að leiðrétta þessa gjörð með einfaldri breytingu á reglugerð.
Sérhæfing og framtíð hins fornfræga Héraðshælis Austur-Húnvetninga liggur í öldrunarhjúkrun og lokaðri heilabilunardeild sem þjónað gæti öllu Norðurlandi vestra. Mikill styrkur liggur í óvenju miklum, vel gerðum en vannýttum húsakynnum.
Sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu í Húnaþingi eystra liggja einnig í eflingu og samþættingu heimahjúkrunar, sem er á forræði heilsugæslunnar og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Samþætting allra sjúkraflutninga, Brunavarna A-Hún og Slökkviliðs Skagastrandar er löngu orðin brýn. Þjálfun bráðaliða á Skagaströnd í samvinnu við þá öflugu björgunarsveit sem þar er ætti að setja í forgang. Setja þarf á stofn dagvist fyrir aldraða í Húnaþingi eystra eins og annars staðar á Norðurlandi vestra. Þrátt fyrir skýr lagatilmæli hefur skortur á slíku úrræði lengi verið svæðinu til vansa. Þar eiga lítil, veik og ósamstíga sveitarfélög á svæðinu stærstan hlut að máli.
Stærsta sameining sveitarfélaga á Íslandi var gerð í Skagafirði fyrir meira en áratug, hún leiddi af sér öflugri viðspyrnu en áður og reyndist gæfuspor.
Þekktur er sá leiðarsteinn að þegar tannlæknar yfirgefa lítil vestræn landsbyggðarsamfélög er voðinn vís. Þetta hefur átt sér stað í Húnaþingi eystra, svæði sem hefur mátt búa við fólksfækkun nánast án hliðstæðu, viðvarandi neikvæðan hagvöxt, vanmáttuga stjórnsýslu og vaxandi einhæfni og erfiðleika í atvinnulífi.
Sameining sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra liggur nú vonandi loks fyrir en hefði betur átt sér stað fyrir 15-20 árum. Ríkisvaldið hefur of lengi þverskallast við að lögþvinga sameiningar. Húnaþing eystra hefur í þessu tilliti orðið hvað verst úti þar sem skæður hrepparígur frá gamalli tíð, fjarstæðukennd lög um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sérgæska einstakra sveitastjórnafulltrúa á jötu, auk umráða stakra hreppa yfir miklu fjármagni, m.a. vegna sölu aflamarks úr byggð, hefur ráðið för frekar en heildarhagsmunir íbúa. Varpi nýr ráðherra sveitastjórnarmála framkvæmdaáætlun forvera síns um stórfelldar lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga fyrir róða sigi enn á ógæfuhliðina.
Samvinna félagasamtaka í Skagafirði og Húnaþingi eystra hefur farið vaxandi á undagengnum árum og t.a.m. þegar skilað árangri í íþróttum sem eftir er tekið. Til að frekari samvinna, á sem flestum sviðum geti haldið áfram að þróast á þessum svæðum þarf að huga að bættum samgöngum milli þéttbýliskjarna á Norðurlandi vestra og gera lágvöruverslun kleyft að koma sér hér fyrir. Ný brú yfir Laxá á Refasveit og endurbættur vegur til Skagastrandar er þegar á teikniborði. Leggja þarf áherslu á fulla breidd Þverárfjallsvegar að vestan og huga að vegstyttingu á þeirri leið yfir Kolugafjall, þar sem gamla þjóðleiðin lá, helst með stuttum jarðgöngum. Samfélögin vestan Tröllaskaga þurfa að sameinast og skipta með sér verkum. Að öðrum kosti lúta allir í gras.
Héðinn Sigurðsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.